10.7.2013 22:40

Miðvikudagur 10. 07. 13

Bandarískur dómari hefur úrskurðað að Apple-fyrirtækið hafi tekið höndum saman við fimm útgefendur til að hækka smásöluverð á rafbókum. Dómsmálaráðuneytið höfðaði málið til að rjúfa verðsamráðið. Málið á rætur í samningum sem Apple gerði árið 2010 þegar iPadinn kom til sögunnar. Apple ætlar að áfrýja dómnum.

Apple var sakað um samsæri í því skyni að grafa undan Amazon.com sem þá hafði 90% hlutdeild á rafbókamarkaði. Amazon greiddi almennt 9,99 dollara heildsöluverð fyrir metsölubækur á Kindle. Apple gerði samning við fimm útgefendur um 12,99 og 14,99 dollara verð á rafbókum.  

Harkan í framgöngu Apple og annarra stórfyrirtækja á sviði upplýsingatækni er mikil og dómsmálin eru mörg enda gífurlegir hagsmunir í húfi. Síðan er hin hliðin á starfsemi þessara fyrirtækja, það er hvernig þau nýta upplýsingarnar sem þau afla um viðskiptavini sína í því skyni að höfða til auglýsenda og kalla þá til viðskipta við sig. Loks hefur nú verið skýrt frá nánu samstarfi fyrirtækjanna við njósna- og hleranastofnanir.

Frétt birtist í dag á Evrópuvaktinni um að Helmut Schmidt (94 ára), fyrrverandi Þýskalandskanslari, hefði keypt 38.000 mentól-sígarettur af því að hann bjóst við að Brusselmenn bönnuðu þær til að bjarga heilsu hans og lífi. Mótmæla má á ýmsan hátt.