6.7.2013 22:30

Laugardagur 06. 07. 13

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er húsnæðis- og félagsmálaráðherra. Hún segir við Fréttablaðið fimmtudaginn 4. júlí að það sé í höndum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis að ákveða hver framtíð Íbúðalánasjóðs verði eftir að svört skýrsla hefur verið birt um sjóðinn og starfsemi hans.

„Skýrslan er hörð, óvægin og skýr áfellsdómur yfir stjórmálamenningunni sem ríkt hefur á Íslandi,“ segir Eygló við blaðið, ekki megi þó gleyma að horfa á stöðu sjóðsins með tilliti til hrunsins hún sé „líka hluti af því ástandi sem skapaðist hér 2008“. Þá segir í Fréttablaðinu:

„Spurð hvort ekki standi til að láta hlutaðeigandi sæta ábyrgð vill Eygló ekki taka beina afstöðu til þess en segir þó að eðli málsins samkvæmt komi það vel til greina.

„Ég tel að það sé fyrst og fremst hlutverk Alþingis að álykta þar um. En mér þykir það eðlilegt að menn verði látnir svara fyrir það á viðeigandi stöðum til dæmis hjá lögreglu hafi þeir á annað borð brotið lög. Það er mjög mikilvægt,“ segir hún.“ 


Eygló stóð á sínum tíma að tillögu um að ákæra Geir H. Haarde og kalla hann fyrir landsdóm. Hún efast ekki um réttmæti þess óhæfuverks þótt þing Evrópuráðsins telji mannréttindabrot að breyta pólitískum ágreiningi í refsimál.

Hvernig á að skilja orð ráðherrans í samtalinu við Fréttablaðið um að „hlutaðeigandi“ eigi að sæta ábyrgð og það sé „fyrst og fremst“ alþingis að álykta um það og síðan minnist hún á lögreglu? Ber að skilja orð félagsmálaráðherra á þann veg að hún vilji að alþingi álykti að hafin skuli lögreglurannsókn á hendur einhverjum einstaklingum?

Eitt er að hafa hlaupið illilega á sig með stuðningi við ályktun um málshöfðun fyrir landsdómi, það mál heyrir þó undir alþingismenn, annað að gefa til kynna að þingmenn eigi að álykta um upphaf lögreglurannsóknar. Það er tímabært að einhver bendi félagsmálaráðherra á að hún ber pólitíska ábyrgð á viðbrögðum við skýrslunni um Íbúðalánasjóð – hún getur hvorki varpað henni á þingnefnd né lögreglu. Var einhver að tala um slæma stjórnmálamenningu?