5.7.2013 23:30

Föstudagur 05. 07. 13

Í Frakklandi hefur það gerst eins og lesa má hér að Nicolas Sarkozy og flokki hans UMP hefur verið neitað um 11 milljón evra styrk, um 1,8 milljarðar ísl. króna, úr ríkissjóði vegna forsetakosningabaráttunnar veturinn og vorið 2012 þegar hann tapaði fyrir François Hollande.

Í Frakklandi fylgist sérstök nefnd með ráðstöfun frambjóðenda og flokka á opinberum styrkjum til stjórnmálastarfs og leggur mat á hvort heimilt sé að inna greiðslur af hendi miðað við gildandi reglur. Nefndin ályktaði í desember 2012 að Sarkozy hefði brotið reglurnar og ætti ekki rétt á styrknum sem nemur tæpum 50% af útgjöldum vegna kosninganna. Sarkozy sætti sig ekki við niðurstöðuna og skaut málinu til stjórnlagaráðs Frakklands þar sem níu fulltrúar sitja auk fyrrverandi forseta landsins, þrír þeirra eru nú á lífi. Stjórnlagaráðið hafnaði kröfu Sarkozys.

Þetta er einstakt mál í franskri stjórnmálasögu. Í úrskurðinum er Sarkozy ekki sviptur kjörgengi og spá ýmsir að niðurstaða stjórnlagaráðsins auki líkur á að Sarkozy verði að nýju virkur í stjórnmálum með forsetaframboð árið 2017 að markmiði. François Fillon, forsætisráðherra í forsetatíð Sarkozys, hefur lýst áformum um forsetaframboð án tillits til hugsanlegs framboðs Sarkozys.

Efni þessa máls er eitt, annað er eftirlitið og aðferðin við að framkvæma það. Sannast enn hve miklu skiptir að fyrir hendi sé úrskurðaraðili á borð við stjórnlagaráðið franska til að taka af skarið um álitaefni tengd æðstu stjórnvöldum ríkisins. Umræður um ýmis málefni hefðu verið á annan veg hér á landi undanfarin ár ætti slíkur aðili síðasta orð. Þörfin fyrir hann eykst í réttu hlutfalli við deilur um rétt forseta Íslands til afskipta af málum sem snerta þingræðisregluna og aðra þætti á valdi stjórnmálamanna.