2.7.2013 22:15

Þriðjudagur 02. 07. 13

Á fundi alþingis í dag sagði Brynhildur S. Björnsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar (Bf), að það hefði vakið „heimsathygli“ að engin kona sæti í hópi þriggja íslenskra þingmanna sem sitja á þingi Evrópuráðsins. Beindi hún spurningum um málið til Karls Garðarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins (F), formanns þingmannanefndarinnar.

Karl sagði að mönnum hefði verið ljóst að þessi þriggja karla þingmannanefnd bryti í bága við reglur þingsins í Strassborg. Það hefði hins vegar ekki tekist samkomulag milli þeirra þriggja flokka sem eiga fulltrúa í nefndinni, þ.e. Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, um hvaða karl ætti víkja fyrir konu. „Þetta er mikilvæg nefnd. Flokkarnir þrír leggja mikla áherslu á að ákveðnir aðilar séu í þessari nefnd og er ekkert við það að athuga í sjálfu sér,“ sagði Karl. Á ensku kynni einhver að segja að þetta sjónarmið væri „sexist“ en Karl bætti við:

„Auðvitað hefðum við átt að ná samkomulagi um þetta mál áður en farið var út. Við vissum af þessari reglu rétt áður en við fórum út en hins vegar náðist ekki samkomulag. Það vantar aðila innan þingsins sem tekur á málum af þessu tagi og hefur vald til að taka ákvörðun. Enginn slíkur aðili er til staðar í dag sem þýðir að flokkarnir, þrír í þessu tilfelli, verða sjálfir að ná samkomulagi. Sjálfur lagði ég, áður en við fórum út, mikla áherslu á að slíkt samkomulag næðist en það tókst því miður ekki.“

Vegna þessara má spyrja: Hvaða aðila finnst Karli vanta? Jafnréttisfulltrúa sem hafi vald til að grípa fram fyrir hendur þingflokka? Hrópi þingmenn á aðila til að segja sér fyrir verkum verður lítið úr gildi 48. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Má ekki segja stjórnendum þingsins í Strassborg frá þessu stjórnarskrárákvæði? Alþingismenn geti ekki verið bundnir við annað en sannfæringu sína.