19.5.2013 23:55

Sunnudagur 19. 05. 13

Nú hlýtur að bera til tíðinda í stjórnarmyndunarviðræðunum. Kosið var 27. apríl og nú er 19. maí, frá upphafi hefur verið ljóst að ekki kæmi annað til greina, tækju menn mið af úrslitum kosninganna, en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu stjórn. Formenn flokkanna hafa nú talað saman í tvær vikur og fengið til þess góðan frið. Fréttir af viðræðunum hafa snúist meira um umgjörð og aukaatriði en efni málsins.

Fjölmiðlar eru síður en svo aðgangsharðir við öflun pólitískra frétta. Sá maður sem nú er orðinn aðalritstjóri 365 fjölmiðlaveldisins með sameinuðum fréttastofum hefur ekki meiri áhuga  á stjórnmálum en að hann skrifaði leiðara um skaðsemi reykinga á kjördag, sé rétt munað. Að velja hann sem aðalritstjóra bendir til að fréttaþjónustan sé markvisst að breytast í einskonar neytendaþjónustu. Í æ ríkari mæli er litið á fréttamennsku sem miðlun upplýsinga til neytenda.

Þessi þróun í fjölmiðlum veldur því að þeir hætta að skipta sama máli og áður í opinberum umræðum. Sjónvarpsþættir um stjórnmál eins og danski þátturinn Borgen og bandaríski þátturinn House of Cards segja frá þríhyrningi: stjórnmálamanni, fjölmiðlamanni og almenningi. Fjölmiðlamaðurinn gegnir ekki minna hlutverki en stjórnmálamaðurinn þegar leitast er við að hafa áhrif á almenna manninn,. Milli fjölmiðlamannsins og stjórnmálamannsins eru síðan spunaliðarnir sem krydda það sem fyrir almenna manninn er borið.

Er þessi þríhyrningur fyrir hendi hér á landi? Hér láta háskólamenn að sér kveða í umræðum á sama veg og dálkahöfundar eða fréttaskýrendur fjölmiðla erlendis. Háskólamenn eru hluti af þríhyrningum í stað þess að standa utan hans. Þeir skipa sér við hlið fjölmiðlamannanna. Háskólamenn eiga einkum greiðan aðgang að fréttastofu ríkisútvarpsins og eru oft leið hennar til að ljá pólitískum frásögnum sínum blæ óhlutdrægni.