8.5.2013 22:00

Miðvikudagur 08. 05. 13

Í dag ræddi ég við Jón Þór Ólafsson, nýkjörinn þingmann Pírata, í þætti mínum á ÍNN. Mér lék forvitni á að vita hver væri stefna þessa flokks sem fékk 5,1% og þrjá þingmenn í kosningunum 27. apríl. Ég vona að áhorfendur verði nokkru nær eftir að hafa horft og hlustað á samtal okkar. Píratar eru eins máls flokkur sem vill gæta þess að áhrif fjórðu upplýsingabyltingarinnar skili sér sem fyrst og best inn í mannleg samskipti og viðskipti.

Þátturinn er sýndur klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma til kl. 18.00 á morgun.

Skruppum austur að Þingvallavatni. Það var spegilslétt og mátti heyra í himbrimanum. Hvítur Hengillinn speglaðist í sólgylltu vatninu þegar við ókum aftur til borgarinnar.

Eina skynsamlega leiðin til að standa vörð um náttúruna innan þjóðgarðisns er að leggja göngustíga og sjá til þess að þeir séu nýttir. Góðar merkingar og upplýsingar skipta miklu. Enginn ferðamaður kemur á Þingvöll til að níðast á náttúrunni. Átroðningur hundruð þúsunda skilur hins vegar eftir sig spor og sjá verður til þess að þau séu í stígum og á pöllum.

Finna verður leið til að tryggja að þjóðgarðurinn sé fjárhagslega sjálfbær og þeir sem þangað koma leggi sjálfir grunn að því að innviðir hans séu nógu öflugir til að taka á móti ferðamönnum. Hér er um vanda sem stafar af eigin velgengni að ræða og á honum er unnt að sigrast.

Laga- og reglurammi auk stefnumótunar er fyrir hendi. Það sem máli skiptir er að standa þannig að framkvæmdinni að sem mest sátt ríki um hana.