1.5.2013 23:40

Miðvikudagur 01. 05. 13

Nú hefur Smugan vefblað til stuðnings VG lagt upp laupana og birtist ekki að nýju nema takist að safna fé til útgáfunnar. Það er meira en að segja það að halda úti vefblöðum eða vefsíðum og sjá til þess að efnið á þeim súrni ekki vegna hreyfingarleysis.

Við Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins, höfum nú haldið vefblaðinu Evrópuvaktinni  úti í þrjú ár. Þar hefur birst meira efni um Evrópusambandið og þróunina innan þess en í nokkrum öðrum íslenskum miðli á þessum tíma. Í dag er þar til dæmis útdráttur úr fróðlegri grein eftir Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, sem telur að aðeins sé um tvo kosti að ræða, að ESB splundrist innan frá eða til verði öflugra yfirþjóðlegt samband sem taki til sín meira vald en nú er frá þjóðþingum aðildarríkjanna. Fischer er eindreginn talsmaður seinni kostsins.

Evrópuvaktin sótti um styrki á árunum 2011 og 2012 úr sjóði sem alþingi myndaði til styrktar þeim sem ynnu að kynningu á Evrópumálum vegna umsóknarinnar að ESB. Fékk Evrópuvaktin styrki bæði árin. Nokkuð veður var reynt að gera vegna styrkveitingarinnar fyrra árið meðal annars af fólki sem bauð sig fram til alþingis í kosningunum 27. apríl en kolféll.

Ef til vill er ekki ástæða til að halda Evrópuvaktinni áfram. Það kemur í ljós. Málefnalega hefur markmið okkar Styrmis náðst, það er að koma þeim frá völdum sem vilja aðild Íslands að ESB. Í stað þeirra hafa nú þeir flokkar meirihluta á alþingi sem fylgja sömu stefnu og Evrópuvaktin, að Íslendingar eigi ekki erindi í ESB en leggja beri fyrir þjóðina hvort halda skuli áfram viðræðunum sem hófust eftir samþykkt alþingis 16. júlí 2009.

Nú er samtal mitt við Kjartan Gunnarsson, fyrrv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN 24. apríl komið á netið og má sjá það hér.