28.4.2013 22:17

Sunnudagur 28. 04. 13

Nú liggja úrslit kosninganna fyrir. Stjórnarflokkarnir töpuðu samtals 27,7% fylgi frá kosningunum 2009, Samfylkingin tapaði 16,9% og VG 10,8%. Á landsvísu bætti Framsóknarflokkurinn við sig 9,6%, Sjálfstæðisflokkur bætti við sig 3%, 

Nýju flokkarnir tveir, Björt framtíð og Píratar fengu samtals 13,3%, sá fyrrnefndi 8,2% og sá síðarnefndi 5,1%.

Sjálfstæðisflokkur er stærsti flokkur landsins, fékk 26,7% atkvæða og 19 þingmenn. Framsóknarflokkurinn er næst stærstur með 24,4% og 19 þingmenn. Samfylkingin fékk 12,9% atkvæða og níu þingmenn, VG með 10,8% og sjö þingsæti, Björt framtíð 8,4% sex þingmenn og Píratar fengu 5,1% og þrjá þingmenn.

Allir stjórnarandstæðingar hljóta að fagna þessari niðurstöðu. Útreið ríkisstjórnarinnar er hrikaleg, öll fyrirstaða í hennar þágu brast. Hún er hin eina og sanna hrunstjórn Íslandssögunnar.

Í kortunum er að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndi ríkisstjórn. Formenn flokkanna eiga að tilkynna forseta Íslands áform sín um það þegar þeir hitta hann á morgun. Þingið ræður hvaða stjórn er mynduð en ekki forsetinn.

Enginn tími má fara til spillis. Þjóðarhagur krefst þess að tafarlaust verði horfið af braut Jóhönnu og Steingríms J.

Hafi eitt mál fengið illa útreið í kosningunum er það ESB-aðildarmálið. Nú á að láta það liggja í láginni, endurmeta stefnuna og endurskipuleggja samstarfið við ESB með nýjum mönnum. Í grein á Evrópuvaktinni sem lesa má hér lýsti ég stöðu ESB-málsins og sagði það lík í lestinni sem ætti að setja sem fyrst fyrir borð.

Ég bendi á Facebook síðu mína þar sem ég hef minnst á nokkur atriði í dag og hafa orðið líflegar umræður um þau.

Tíundi og síðasti þáttur í Borgen var sýndur í kvöld. Hann endaði á gleðilegri nótum en almennt gerist í pólitík eða fjölmiðlun.