21.4.2013 22:55

Sunnudagur 21. 04. 13

Qi gong kyrrðardögunum lauk um hádegisbilið í Skálholti og ókum við til baka til Reykjavíkur í sólbjörtu veðri. Ég hef ekki tölu á hve oft við Gunnar Eyjólfsson við höfum verið saman í Skálholti á kyrrðardögum en ávallt er jafngott á þessum stað sem Gunnar segir hinn helgasta á landinu. Hann minnist jafnan píslarvottarins Jóns Arasonar biskups og fórum við að minnisvarðanum um hann áður en við ókum til borgarinnar.

Gunnar segir gjarnan sögu af því þegar hann var með hópi kaþólskra gesta frá  Póllandi í Skálholti. Hann lýsti fyrir þeim örlögum Jóns og sona hans. Pólverjarnir hófu þá að syngja og gengu að minnisvarðanum í einfaldri röð, krupu á kné og kysstu jörðina þar sem blóð þess sem fallið hafði fyrir trú sína rann á sínum tíma. Nú reynir á nýjan páfa, Frans, hvort hann samþykkir að taka Jón Arason í helgra manna tölu.