18.4.2013 19:40

Fimmtudagur 18. 04. 13

Nokkrir erlendir blaðamenn koma til landsins í tilefni af þingkosningunum og þar á meðal til að átta sig á stöðunni í ESB-málinu. Ég ræddi við einn þeirra í dag. Það vekur undrun að lagt hafi verið af stað í ESB-vegferðina á jafnveikum grunni og gert var. Venjulega sendir ríkisstjórn ekki inn umsókn nema hugur hennar og meirihluta þjóðarinnar standi til aðildar. Hér var sótt um með því fororði að kanna ætti málið, sjá til hvers umsókn leiddi og greiða síðan atkvæði um niðurstöðuna. Er einsdæmi að þannig sé staðið að málum.

Sé farið af stað til að fá einhverja niðurstöðu sem enginn vill styðja nema kannski embættismennirnir sem stóðu að niðurstöðunni og þetta gert að markmiði umsóknar um aðild sjá allir sem þekkja til  ESB og stækkunar sambandsins að hér er um pólitískan leikaraskap að ræða. Þannig standa málin núna að látið er eins og það sé markmið í sjálfu sér að fá einhverja niðurstöðu og takast síðan á um hana á heimavelli. Niðurstaða í þeim átökum muni leiða til þess að ESB-mál verði ekki ágreiningsmál í íslenskum stjórnmálum.

Þetta afstaða er þeim óskiljanleg sem fylgst hafa með umsóknum og aðildarviðræðum annarra þjóða. Þær hafa rætt við ESB um aðild af því að ákvörðun hefur verið tekin á heimavelli um að brýnir hagsmunir mæli með aðild. Hér ekki neinu slíku haldið fram heldur látið í veðri vaka að hér skapist annars konar efnahagsástand en hvarvetna annars staðar í jaðarríkjum ESB.