12.4.2013 22:41

Föstudagur 12. 04. 13

Umræður eru skrýtnar hér á landi. Viðskiptablaðið kaupir könnun. Niðurstaðan vekur mikla athygli. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bregst við henni með því að sýna á sér nýja og einlægari hlið í sjónvarpi, viðurkennir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki gert upp við hrunið á viðunandi hátt og hann þurfi að íhuga stöðu sína. Fylgi flokksins tveimur vikum fyrir kosningar sé minna en viðunandi sé, hann hljóti að taka á síg ábyrgð vegna þess. Hann ætli sér 24 til 48 stundir til þess að hugsa sinn gang, þær eru ekki liðnar þegar þetta er skrifað

Af umræðum í netheimum er ljóst að Bjarni hefur í sjóvarpsviðtalinu náð til áhorfenda, grasrótarinnar, á annan hátt en áður. Hann gaf meira af sér persónulega en hann hefur áður gert. Atvik á borð við þetta geta skipt sköpum fyrir stjórnmálamenn, hvort heldur til góðs eða ills. Almennt sýnist að þetta hafi orðið Bjarna til góðs. Um stjórnmálamenn gildir hið sama og um fólk almennt að áhrif orða þeirra vega misþungt, augljóst er að Bjarni snerti marga með framgöngu sinni að þessu sinni.

Ræða menn þetta helst eftir þáttinn? Nei, ætlunin er að sanna að könnunin hafi verið gerð af illum huga og birt á þeirri stundu sem kom Bjarna verst. Því er jafnvel haldið fram að Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, eða útsendarar hennar hafi beitt sér fyrir könnuninni til að koma höggi á formanninn.  Þessi þráður er spunninn í þeim eina tilgangi að ýta undir ágreining í Sjálfstæðisflokknum.

Útgefandi Viðskiptablaðsins vann fyrir mig í prófkjöri 2006 og fyrir Hönnu Birnu í prófkjöri 2005 vegna borgarstjórnarkosninga. Hvaða afstððu hann hefur nú til manna og málefna, veit ég ekki. Ritstjóri Viðskiptablaðsins er gamall stuðningsmaður Bjarna Benediktssonar. Að þessir tveir menn hafi af illum eða annarlegum huga ráðist í könnun til að koma Bjarna í koll er með ólíkindum. Ég held að þeir hafi  fylgt straumnum hjá fjölmiðlum og talið söluvænt að birta enn eina könnuninna. Þeir hafa örugglega ekki tapað á því miðað við áhugann og athyglina sem könnunin hefur vakið.