1.4.2013 23:55

Mánudagur 01. 04. 13

Icelandair-vélin lagði af stað á réttum tíma kl. 23.00 frá Bilbao-flugvelli og lenti um klukkan 00.40 á Keflavíkurflugvelli, löngu fyrir auglýstan komutíma samkvæmt áætlun. Mátti jafnvel ætla að höfundur áætlunarinnar hefði gleymt því að klukkunni var flýtt um klukkustund á meginlandinu um helgina.

Síðasta daginn í Bilbao fór ég að nýju í Guggenheim-safnið einstæða. Einnig í skoðunaferð eftir ánni eða fljótinu sem rennur um Bilbao og sigldum við í áttina til sjávar. Af því sem leiðsögumaður sagði hafa heimsfrægir arkitektar komið að teikningum húsa eða gerð skipulags í nágrenni við hið fræga hús eftir Frank O. Gehry og má sjá það hér hve margar glæsilegar byggingar prýða borgina. Gamlar myndir frá svæðinu þar sem Guggenheim-safnið stendur nú sýna að þar var höfn og hnignandi gámasvæði.

Eftir að járniðnaður og skipasmíðar lögðust af varð Bilbao bær úr alfaraleið og varð að huga að framtíð hennar eftir nýjum leiðum.  Það heppnaðist með miklum ágætum.