23.3.2013 23:07

Laugardagur 23. 03. 13

Athygli vakti að föstudaginn 22. mars sagði aðeins Fréttablaðið frá að réttað hefði verið daginn áður í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, vegna þess að hann bað starfsmann Landsbankans að útvega sér skjöl varðandi Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann og sendi þau á DV þar sem hann taldi Guðlaug Þór hafa komið upplýsingum gegn sér í Kastljós.

Þetta er stórfurðulegt mál sem snertir háttsettan embættismann, alþingismann og tvo fjölmiðla DV og ríkisútvarpið.

Ástæðulaust er að ætla að þögn um málið í öðrum fjölmiðlum en Fréttablaðinu stafi af áhugaleysi. Ástæðan er að öllum líkindum önnur. Fréttastjórar skoða vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur til að átta sig á hvaða mál eru tekin fyrir dag hvern. Hið sérkennilega er að ekkert var sagt frá fyrirtöku málsins á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Enn sérkennilegra er að ekki hefur verið sagt frá leyndinni yfir málinu í fjölmiðlum. Ætli fjölmiðlamönnum sé sama um að staðið sé að upplýsingamiðlun hjá Héraðsdómi Reykjavíkur á þennan hátt? Réttarhöld í sumum málum eru kynnt en ekki öðrum. Hvaða regla gildir?

Einn besti sakamálaþáttur í sjónvarpi um þessar mundir er þátturinn Beck sem til dæmis er sýndur á DR1 á laugardagskvöldum.