19.3.2013 18:24

Þriðjudagur 19. 03. 13

Frá 20. janúar hef ég staðið að fjórum 50 mínútna þáttum á sjónvarpsstöðinni ÍNN um stjórnarskrármálið.

Í fyrsta þættinum 20. janúar ræddi ég við Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra, um þátt frumvarps stjórnlagaráðs um stjórnskipunina: forsetaembættið, ríkisstjórn og alþingi. Ræddum við Sighvatur málið með hliðsjón af reynslu okkar af stjórnmálastörfum. Sjá má þáttinn hér.

Í öðrum þættinum 3. febrúar var Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, gestur minn og ræddum við um stjórnmálafræðilega þætti málsins og samanburð við stjórnarfar í öðrum löndum. Sjá má þáttinn hér.

Í þriðja þáttinn 13. febrúar kom Brynjar Níelsson hrl. til mín og ræddum við um mannréttindaákvæði í stjórnlagafrumvarpinu og álit Feneyjanefndarinnar. Sjá má þáttinn hér.

Í fjórða og síðasta þættinum 17. mars ræddum við Skúli Magnússon, lektor við lagadeild Háskóla Íslands og héraðsdómari, um stjórnlagaferlið í heild og „litla stjórnarskrárfrumvarpið“ sem nú er til meðferðar á alþingi. Sjá má þáttinn hér.

Ég leyfi mér að fullyrða að á ÍNN hafi verið farið ítarlegar yfir stjórnarskrármálið eins og það er nú en á nokkurri annarri sjónvarpsstöð og þar geti menn áttað sig betur á álitaefnum í málinu en annars staðar í fjölmiðlum. Ég leyni ekki skoðun minni á málinu og meðferð þess og viðmælendur mínir ekki heldur. Allt sem sagt er styðst hins vegar við málefnaleg rök. Þeir sem horfa á þættina hljóta að sannfærast um hve varasamt er að afgreiða stjórnarkrármálið í þeim búningi sem það er, hvort heldur litið er á stóra eða litla frumvarpið.