14.3.2013 22:05

Fimmtudagur 14. 03. 13

Frans páfi var kjörinn í gær. BBC World Service sýnir páfakjörinu og hinum nýja páfa mikinn áhuga og fróðleikurinn sem miðlað er eykur traust í garð þess sem var valinn eftirmaður Péturs postula. Einkennilegasta fréttin tengd páfakjörinu kom frá Venezúela þar sem varaforseti landsins og frambjóðandi til forseta eftir andlát Hugos Chavezar segir fullum fetum að Chavez sé nú með Jesú Kristi í himnaríki og hafi bent honum á Jorge Mario Bergoglio (76 ára), erkibiskup í Buenos Aires, sem góðan páfa og að sjálfsögðu hafi verið farið að þeim ráðum.

Í hádeginu flutti Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, erindi um rannsóknarheimildir lögreglu á fundi Varðbergs. Stefán fjallaði um málið út frá þeim heimildum sem lögreglan hefur nú. Eiður Guðnason, fyrrv. ráðherra og sendiherra, benti á að yrði ekki tryggt að íslensk lög veittu lögreglu sömu heimildir og gilda í nágrannaríkjum væri hætta á að hingað leituðu afbrotamenn sem teldu sig hafa meira skjól hér á landi en annars staðar.

Ögmundur Jónasson stendur gegn þróun löggjafar í þessu efni, ekki megi veita heimildir til forvirkra rannsókna gagnvart hópum sem berjist fyrir ákveðnum skoðunum. Þetta viðhorf er vísasta leiðin til að skapa skjól fyrir öfgahópa sem svífast einskis til að vinna málstað sínum brautargengi. Þá er einkennilegt að heyra þann ráðherra segja þetta sem er frægastur utan lands í seinni tíð fyrir að ætla að reisa „klámskjöld“ um Ísland í netheimum og beita til þess sömu aðferðum og kínversk stjórnvöld beita til skoðanakúgunar í landi sínu. Vinstri grænir láta ekki að sér hæða þegar lögreglan á í hlut.

Á vefsíðu andriki.is má lesa í dag:

„Það er sakleysislegt nafn búsáhaldabyltingin. En öllum sem lesa nýja bók Stefáns Gunnars Sveinssonar sagnfræðings, Búsáhaldabyltingin – sjálfsprottin eða skipulögð? hlýtur að bregða við þá upprifjun á atburðunum sem voru í þeim potti, ofbeldinu, skemmdarverkunum, orðbragðinu, þátttöku þingmanna, misbeitingu fjölmiðla.“

Fyrst var sagt frá þessari bók í gær og varð þá furðulegt uppnám á ýmsum stöðum. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sem sögð er koma við sögu vegna ónota í garð lögreglu þegar hún varði vinnustað hennar, Alþingishúsið, endurtekur að allir sem gagnrýna framgöngu hennar sem þingmanns hafi rangt fyrir sér. Sérkennilegast var þó að lesa blogg-viðbrögð Egils Helgasonar, umræðustjóra ríkisútvarpsins: Þarf hann ekki að lesa bækur til að leggja dóm á þær? Aðrir tóku til við að gera höfundinn tortryggilegan. Fyrir okkur sem þekkjum málið úr návígi verður fróðlegt að sjá þessa sögu sagða.