13.3.2013 21:25

Miðvikudagur 13. 03. 13

Í dag er sýnt á ÍNN samtal mitt við Valgerði Gunnarsdóttur, skólameistatara á Laugum og frambjóðanda í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi. Ræðum við stöðu mála í kjördæminu og einnig framhaldsskólastigsins almennt enda er Valgerður formaður skólameistarafélagsins. Næst verður samtalið sýnt klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, skrifar pistla á vefsíðuna Eyjuna. Í pistli í gær skrifar hann um fyrstu skóflustungu að húsi íslenskra fræða sem Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tók mánudaginn 11. mars. Stefán segir:

„Forsaga Húss íslenskra fræða er líka fróðleg. Þannig var að þegar Háskóli Íslands varð 90 ára gamall, árið 2001, þá færði þáverandi menntamálaráðherra Björn Bjarnason háskólanum afmælisgjöf, eins og margir gerðu við það tækifæri.

Afmælisgjöfin sem Björn Bjarnason færði HÍ fyrir hönd þáverandi ríkisstjórnar var sú, eins og tilkynnt var við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu, að ríkið myndi færa Háskólanum nýja byggingu yfir íslensk fræði og Árnastofnun.

Sá böggull fylgdi skammrifi að gjöfin skyldi afhendast á 100 ára afmæli Háskóla Íslands, árið 2011! Þetta var sem sagt “loforð” um að einhver önnur ríkisstjórn myndi færa HÍ slíka afmælisgjöf á hundrað ára afmælinu, tíu árum síðar!

Þessi “afmælisgjöf” ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar vakti mikla furðu í yfirstjórn Háskólans á þessum tíma – og litla kátínu. Mönnum var auðvitað ljóst að loforð án fjármögnunar eru almennt lítils virði.“

Þetta er ótrúleg samsuða. Hér má lesa ávarp sem ég flutti í Alþingishúsinu 17. júní 2001 í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands; að ég „gefi“ skólanum hús við það tækifæri hrein ímyndun. Ég flutti síðan ræðu á háskólahátíð 5. október 2001 og má lesa hana hér. Þar nefni ég, að í tilefni 100 ára afmælis Stjórnarráðs Íslands árið 2004 skuli tekin ákvörðun um að reisa hús hér á háskólalóðinni í tengslum við Þjóðarbókhlöðuna, sem hýsi handritin og stofnanir íslenskrar tungu og fræða, færi vel á að taka húsið í notkun á 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Við sölu Landsímans var ákveðið að verja 1.000 milljónum af söluandvirðinu til þessarar byggingar.

Ég skoraði á Stefán Ólafsson að færa sönnur á fullyrðingar sínar í pistlinum á Eyjunni. Hann hefur ekki gert það enda um hreinan hugarburð að ræða.