8.3.2013 21:40

Föstudagur 08. 03. 13

Helgi Magnússon ritar grein í Fréttablaðið í dag og hellir úr skálum reiði sinnar yfir okkur sem erum ósammála honum innan Sjálfstæðisflokksins um ESB-aðildarviðræðurnar. Sá boðskapur dugði honum til að komast í fréttir ríkisútvarpsins. Ég skrifaði um það á Evrópuvaktina eins og lesa má hér.

Helgi vitnar í ræðu sem faðir minn flutti vegna EFTA-samningsins og telur sig þess umkominn að túlka ræðuna á þann veg að ræðumaður væri þeirrar skoðunar nú að Ísland ætti heima innan Evrópusambandsins. Þetta er einkennileg túlkun og á ekki við nein rök að styðjast. Finna má tilvitnanir sem hníga til annarrar áttar.

Eftir að hafa orðið undir á landsfundi sjálfstæðismanna láta ESB-aðildarsinnar eins og þeir hafi verið beittir einhverju harðræði á fundinum. Sú kenning stenst ekki. Þeir þola hins vegar greinilega ekki að tapa í lýðræðislegri kosningu og reyna allt sem þeir geta til að ná sér niðri á þeim sem höfnuðu sjónarmiði þeirra.

ESB-aðildarsinnarnir í Sjálfstæðisflokknum minna á þá sem sátu í stjórnlagaráði og láta nú öllum illum látum og hafa í hótunum við alþingismenn verði ekki farið að vilja þeirra. Ofstæki og illmælgi af því tagi sem þessir hópar tileinka sér í ræðu og riti um þá sem eru þeim ósammála færa stjórnmálaumræðurnar marga áratugi aftur í tímann.