5.3.2013 22:41

Þriðjudagur 05. 03 13


Mikael Torfason er aftur orðinn ritstjóri í þjónustu Baugsmanna. Skýrt var frá því dag að Mikael yrði ritstjóri Fréttablaðsins við hlið Ólafs Þ. Stephensens sem vann sér það til vandræða að taka undir með Magnúsi Halldórssyni, blaðamanni hjá 365, sem gagnrýndi afskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af störfum blaða- og fréttamanna 354.

Jón Ásgeir herðir tök sín á ritstjórn Fréttablaðsins með því að setja Mikael til höfuðs Ólafi. Raunar er ólíklegt að Ólafur sætti sig við að hafa ritstjóra sér við hlið, Hann sat einn á stóli ritstjóra Morgunblaðsins um skeið og hefur verið ritstjóri Fréttablaðsins einn. Ýmislegt bendir til að líta beri á ráðningu Mikaels sem óbeina uppsögn Ólafs.

Viðbrögð Jóns Ásgeirs við öllu sem um hann er sagt opinberlega sýna að hann hefur mikla þörf fyrir að hafa tök á fjölmiðli eða fjölmiðlaveldi og hann heldur utan um 365 í umboði eiginkonu sinnar sem á allt batteríið.

Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar alþingis, telur sér til framdráttar að halda lífi í fréttum um að hann eigi kannski að fá að lesa í trúnaði útskrift seðlabankans af símtali Geirs H. Haarde, þáv. forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáv. seðlabankastjóra, um ráðstafanir til að halda Kaupþingi á lífi í bankahruninu i október 2008.

Talið um þetta símtal eru leifar af viðleitni VG til að sverta Sjálfstæðisflokkinn vegna fjármálakreppunnar sem gekk fyrst yfir hér á landi með eyðileggjandi þunga. Aðgerðir ríkisstjórnar Geirs H. Haarde lögðu grunn að skynsamlegri leið úr kreppunni. Björn Valur vonar að hann geti kastað rýrð á þann árangur með því að gera þetta símtal grunnsamlegt, hann getur annað hvort skákað í því skjóli að hann fái ekki að sjá það eða megi ekki segja frá því sem hann sá fái hann að lesa það.