4.3.2013 22:50

Mánudagur 04. 03. 13

Í kvöld var fundur hér í Goðalandi í Fljótshlíðinni þar sem Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gerði grein fyrir niðurstöðum rannsókna eftir að boruð var 250 m hola í leit að heitu vatni á landi sveitarfélagsins við Goðaland. Úr holunni má fá 57 sekúndulítra af 14 C° heitu vatni sem unnt er að nýta á hagkvæman hátt með varmadælu. Mikið magn af vatni rennur neðanjarðar um Fljótshlíðina.

Sveitarstjórn stóð að þessari tilraunaborun og kom vatnsmagnið Hauki á óvart. Nú er spurning hvaða skref verður stigið næst. Holan er á stað þar sem tiltölulega stutt er til bæja og frístundahúsa.

Þegar ég kveikti á frönsk/þýsku sjónvarpsstöðinni Arte var verið að sýna þar Mýrina eftir Arnald Indriðason í kvikmyndaleikstjórn Baltasar Kormáks. Nú er Ingvar Sigurðsson að spæna í sig sviðakjamma sem Erlendur og talar þýsku eða frönsku eftir því á hvora rásina er stillt.

Undarlegt er að sjá menn sem vilja láta taka sig alvarlega kvarta undan því og kenna við kommúnisma að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi ályktað um að loka bæri Evrópustofu í ljósi þess að þessir sömu menn sátu landsfundinn og hreyfðu engum andmælum við tillögunni um lokunina þegar  hún var flutt eða borin undir atkvæði.

Úr því að menn kjósa að þegja á fundi um mál sem þeir eru ósammála en höfðu þó tækifæri til að reyna að breyta liggur beint við að álykta að þeir eigi einnig að þegja um málið eftir að fundinum er lokið nema fyrir þeim vaki það eitt að stofna til leiðinda. Lýðræðislegar leikreglur gera meðal annars ráð fyrir að málum sé lokið með atkvæðagreiðslu.

Þá er rétt að minna á að þeir sem stigu fyrsta skrefið til að rjúfa sáttargjörðina um ESB-mál frá landsfundi sjálfstæðismanna árið 2011 voru talsmenn ESB-aðildarviðræðnanna. Þeir töldu að breyta ályktuninni á þann veg að ESB-viðræðunum skyldi lokið. Við það hófst atburðarás sem lauk með að orðin „verði hætt“ komu í staðinn fyrir að „gera hlé“ á ESB-viðræðunum.