22.2.2013 22:41

Föstudagur 22. 02. 13

Sat 41. landsfund sjálfstæðismanna síðdegis í dag. Forystumenn flokksins sátu fyrir svörum og formenn landssambanda sjálfstæðismanna fluttu ávörp. Klukkan 16.00 komu nefndir  saman. Ég sótti fund utanríkisnefndar. Lauk hún störfum fyrir kvöldmat. Ekki var hróflað við samkomulaginu um ESB-málið sem Friðrik Sophusson kynntum með sameiginlegri tillögu á landsfundi 2011 og var samþykkt þar.

Á nefndarfundinum komu fram tillögur sem voru róttækari til beggja átta það er með og móti í ESB-aðildarviðræðunum. Þær féllu fyrir gömlu sáttatillögunni. Á hinn bóginn er ljóst að róttækar tillögur kunna að koma fram á fundinum sjálfum við lokaafgreiðslu á tillögum málefnanefnda.

Við Kjartan Gunnarsson fluttum tillögur sem voru samþykktar til að andmæla áróðursstarfsemi sendiherra ESB hér á landi og útibúi stækkunardeildar ESB, Evrópustofu. Engin andmæli komu við tillögum um þetta efni.

Magnús Halldórsson, viðskiptafréttastjóri Stöðvar 2 og Vísis, ritaði fimmtudaginn 21. febrúar grein á visir.is þar sem hann kvartaði undan afskiptum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (Baugi) af störfum ritstjórna á miðlunum sem ég hef kallað Baugsmiðla hér á síðunni í áranna rás.  Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, hefur tekið undir með Magnúsi og sagt að Jón Ásgeir hafi reynt að hafa áhrif á skrif um sig í Fréttablaðinu. Jón Ásgeir segir að Ólafur hafi ritað greinina með Magnúsi. Freyr Einarsson, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, segist aldrei hafa orðið fyrir þrýstingi frá Jóni Ásgeiri. Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir að Magnús hafi skrifað grein sína gegn fyrirtækinu. Ari segir stöðu Ólafs Þ. Stephensens óbreytta.

Reynslan ætti að hafa kennt mönnum að ekkert er að marka yfirlýsingar Jóns Ásgeirs eða hans nánustu samstarfsmanna um afskipti hans af störfum blaðamanna á Baugsmiðlunum. Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi nefni ég dæmi um þessi afskipti. Unnt er að skoða þau þar. Þegar hæstiréttur sneri á dögunum dómi undirréttar mér í vil gegn Jón Ásgeiri gaf Freyr Einarsson fyrirmæli um fyrirsögn á frétt á visir.is mér í óhag. Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2, sagði mér frá þessu eins og áður hefur birst hér á síðunni. Tók Þorbjörn fréttina af vefsíðunni þegar hann hafði áttað sig á efni málsins að fenginni kvörtun minni.

Magnús Halldórsson og Ólafur Þ. Stephensen eiga hrós skilið fyrir að segja skoðun sína. Fjölmargir starfsmenn 365 taka undir með þeim. Reynir Traustason, ritstjóri DV, birtir ítarlegar fréttir um málið. Hann ætti að segja frá samskiptum sínum við Jón Ásgeir, til dæmis þegar Reynir birti bútana úr fundargerðum stjórnar Baugs í Fréttablaðinu fyrir 10 árum til að koma höggi á Davíð Oddsson. Þá var ekki á opinberu vitorði að Jón Ásgeir ætti Fréttablaðið.