19.2.2013 21:00

Þriðjudagur 19. 02. 13

Vinur minn Hannes Hólmsteinn Gissurarson fagnaði 60 ára afmæli í dag. Hann flutti fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands um frjálshyggjuna, kreppuna og kapítalisminn Salurinn var þéttsetinn og góður rómur gerður að máli afmælisbarnsins.

Að loknum fyrirlestri Hannesar Hólmsteins var efnt til hófs í Hámu á Háskólatorgi og þar hyllti ég afmælisbarnið með ávarpi sem má lesa hér.

Í síðustu viku ræddi ég við Brynjar Níelsson á ÍNN, þátturinn verður á dagskrá sunnudaginn 3. mars en hann er þegar kominn á netið eins og sjá má hér

Það er síður en svo leikur að laga frumvarp stjórnlagaráðs að kröfum Feneyjanefndarinnar. Vilji menn vinna verkið vel, tekst það ekki á síðustu dögum þings fyrir kosningar.

Stjórnarskrármálið er í öngstræti og kemst ekki þaðan undir pólitískri yfirstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta er kjarni málsins. Sé hann ekki viðurkenndur halda vandræðin áfram án tillits þess hve lengi þingið verður látið sitja. Jóhanna á síst af öllu nokkuð inni hjá Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Hún hefur leitast við að nota stjórnarskrána í fjögur ár til að berja á Sjálfstæðisflokknum. Þingmenn flokksins ættu að láta Jóhönnu sitja uppi með málið í óefni.