17.2.2013 23:10

Sunnudagur 17. 02. 13

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, tilkynnti í dag að hún ætlaði að bjóða sig fram til formanns á landsfundinum eftir viku. VG þróast á svipaðan hátt og flokkar græningja víða í Evrópu þar sem vinstrisinnað menntafólk tekur höndum saman og setur umhverfisvernd á oddinn í stað marxisma og sósíalisma áður. Almennt sættir þetta fólk sig vel við yfirþjóðlegt vald innan Evrópusambandsins. Daniel Cohn-Bendit, vinstrisinnaður aðgerðarsinni í París vorið 1968 og núverandi ESB-þingmaður, er dæmigerður fulltrúi þessa fólks.

Eftir val VG á lista í Reykjavík var haft á orði að þar hefðu aðeins nokkrar fjölskyldur átt aðild að ákvörðun um framboðslistans og Birni Vali Gíslasyni hefði þess vegna verið hafnað. Enn færri tóku þátt í vali á framboðslistann í Norðausturkjördæmi þar sem Steingrímur J. hlaut aðeins 199 atkvæði. Björn Valur hefur setið á þingi fyrir það kjördæmi.

Fylgiskannanir í Reykjavík benda til þess að VG sé 101 og 107 flokkur í kringum Háskóla Íslands. Einmitt þess vegna varð flokksforystan fyrir léttu áfalli þegar Vaka hlaut 77% atkvæða í kosningunum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands á dögunum.

Daginn áður en Steingrímur J. boðaði afsögn sína sem flokksformaður birtist (16. febrúar) viðtal á Smugunni, vefsíðu VG, við Jóhann Pál Jóhannsson, heimspekinema, efsta mann á lista Röskvu fyrir hugvísindasvið HÍ.  Hann sagði: ,,Þegar Röskva galt þetta afhroð hafði ég fyrst á tilfinningunni að þetta væri einhvers konar fyrirboði fyrir þingkosningarnar í vor. Mér fannst það einna verst. [...] Ég fékk algjört sjökk (svo!) þegar ég heyrði úrslitin því mín tilfinning var allt önnur fyrir kosningarnar.“ Jóhann Páll taldi þó ólíklegt að 77% stúdenta ætlaði að kjósa „hægri öfl“ í vor.

Verði Katrín Jakobsdóttir formaður VG mun sókn flokksins eftir atkvæðum einskorðast við  vinstrisinnaða menntamenn með umhverfisáhuga og ofurtrú á valdi teknókrata og þess vegna einlægan áhuga á aðild að ESB. Áhugi þessa fólks á undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar er í lágmarki. Leiðir þess til tekjuöflunar eru allt aðrar og taka mið af ríkisútgjöldum og ESB-styrkjum, þar á meðal IPA-aðlögunarstyrkjum sem beinast nú þegar helst að sviðum undir stjórn ráðherra VG.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna í tilefni af 18 ára afmæli hennar.