9.2.2013 18:40

Laugardagur 09. 02. 13

Fréttir af stöðu mála á Landspítalanum og lýsingar á hættuástandi þar vekja spurningu um hvers vegna í ósköpunum Guðbjartur Hannesson segi ekki af sér störfum velferðarráðherra. Öllum ætti að vera ljóst að aldrei tekst að leysa þann hnút sem myndast hefur á spítalanum á meðan æðsta stjórn velferðarmála er í höndum Guðbjarts. Önnur eins stjórnsýsla og einkennir starfshætti ráðherrans er sem betur fer einsdæmi. Ekkert annað kemur til greina en að binda strax enda á hana með brottrekstri ráðherrans.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra heldur verndarhendi yfir Guðbjarti. Hún vildi meira að segja að hann yrði eftirmaður sinn sem formaður Samfylkingarinnar. Í þann mund sem formannskjörið var á lokastigi var látið við hjúkrunarfræðinga eins og glufa hefði skapast fyrir tilverknað ráðherrans. Glufan breyttist í úrslitakosti eftir að Guðbjartur tapaði kosningunni. Jóhanna treystir honum til að bera pólitíska ábyrgð á ráðstöfun á um 50% af útgjöldum íslenska ríkisins. Guðbjartur er dæmigert sjúkdómseinkenni lélegra stjórnarhátta undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þótt Guðbjartur sé skjólstæðingur Jóhönnu Sigurðardóttur ber Árni Páll Árnason, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, endanlega pólitíska ábyrgð á setu Guðbjarts í ríkisstjórninni. Árni Páll hefur ekki styrk innan þingflokks Samfylkingarinnar til að ýta Jóhönnu til hliðar. Hann verður hins vegar að krefjast þess af þingflokknum að Guðbjartur Hannesson sé knúinn til að segja af sér. Því verður ekki trúað að þingmennirnir sætti sig við að innra starf Landspítalans sé lagt í rúst rúmum tveimur mánuðum fyrir þingkosningar og öryggi landsmanna ógnað.

Þegar fluttar eru fréttir um að framsóknarmenn álykti á flokksþingi að afnema beri verðtrygginguna verður mér hugsað til laganna sem Ólafur Jóhannesson, þáverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, samdi við eldhúsborðið á Aragötunni snemma árs 1979, Ólafslaganna. Þar var mælt fyrir um verðtryggingu. Ólafur beitti pólitískri kænsku til að knýja á um samþykkt laganna og storkaði ráðherrum í stjórn sinni, úr Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi.  Nú vilja framsóknarmenn kasta Ólafslögum og telja þau hinn mesta vágest. Sic transit ...