2.2.2013 18:10

Laugardagur 02. 02. 13

Flugum í dag um München til Rómar með Icelandair og Lufthansa. Báðar vélar á áætlun og ferðalagið gekk eins og í sögu.

Nýjasti þáttur minn á ÍNN er kominn á netið, viðtal við Sindra Sigurgeirsson, sauðfjárbónda í Bakkakoti í Stafholtstungum, sem fyrst var sýnt miðvikudaginn 30. janúar. Viðtalið má sjá hér Sindri gefur kost á sér til formennsku í Bændasamtökum Íslands.

Á morgun, sunnudag klukkan 17.00, ræði ég við Stefaníu Óskarsdóttur, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, á ÍNN. Er þetta annar þáttur af fjórum sem ég geri um stjórnarskrármálið. Því fleiri sem ég fæ til viðræðna um málið þeim mun sannfærðari verð ég um hve hættulegt er að samþykkja tillögurnar sem liggja fyrir alþingi.

Árni Páll Árnason var kjörinn formaður Samfylkingarinnar í dag. Um leið og ég óska honum til hamingju með kjörið hvet ég hann til að afturkalla stjórnarskrártillögurnar. Hann gæti ekki sýnt á skýrari hátt að umskipti hefðu orðið í Samfylkingunni. Katrín Júlíusdóttir, efnahags- og fjármálaráðherra var kjörin varaformaður. Henni eru fluttar heillaóskir með sömu hvatningarorðum og til Árna Páls.

Á kjörskrá voru 18.318 og greiddu 5.621 atkvæði. Af þeim atkvæðum sem bárust voru 5241 rafræn en 380 bárust með hefðbundnum pósti. Atkvæði féllu þannig:

Guðbjartur Hannesson hlaut 2.115 atkvæði - 37.8% atkvæða. Árni Páll Árnason hlaut 3.474 atkvæði - 62.2% atkvæða. Auðir seðlar og ógildir voru 32. Innan við 20% þeirra sem voru á kjörskrá studdu Árna Pál. Kosningaþátttakan var aðeins tæp 30%.

Þessar tölur eru til marks um uppdráttarsýkina í Samfylkingunni þegar Jóhanna Sigurðardóttir kveður formannsstólinn. Árni Páll á verk að vinna til að auka stuðning við sjálfan sig innan eigin flokks og til að efla flokkinn út á við. Hann getur slegið margar flugur í einu höggi með því að hætta við stjórnarskrárbröltið svo að ekki sé minnst á ESB-viðræðurnar þar sem Össur Skarphéðinsson hefur málað Samfylkinguna út í horn.