28.1.2013 21:50

Mánudagur 28. 01. 13

Það var ekki hátt risið á Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, þegar hann ræddi niðurstöðu EFTA-dómstólsins í dag. Íslendingar unnu málið en Steingrímur J. talaði alltaf um hvað menn hefðu sagt ef málið hefði tapast. Er greinilegt að honum hefði þótt það þægilegri staða fyrir sig. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart hjá manni sem talaði um „glæsilega niðurstöðu“ þegar Svavar Gestsson var að ganga frá fyrsta Icesave-samningnum af þremur sem gerðir voru á ábyrgð Steingríms J. Þeir voru allir felldir, þar af tveir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef Svavars-samningurinn hefði náð fram að ganga sumarið 2009 næmu vaxtagreiðslur íslenska ríkisins nú vegna hans 153 milljörðum króna.

Hér má lesa pistil sem ég tók saman vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins.

Kristján Þór Júlíusson vann góðan sigur í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi, Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari að Laugum, hlaut annað sætið. Þetta var glæsilegur árangur hjá þeim báðum. Ég óska Valgerði sérstaklega til hamingju með þennan góða árangur í fyrsta sinn sem hún gefur kost á sér í prófkjöri.

Steingrímur J. er þingmaður VG í Norðausturkjördæmi. Forval var á þar á dögunum um 770 voru á kjörskrá, 261 kaus, innan við 40%, og hlaut Steingrímur J. tæp 200 atkvæða. Hann fagnaði sigri eins og um mikið afrek hefði verið að ræða.

Á kjörskrá hjá sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi var 4401 við lok kjörfundar 26. janúar. Alls greiddu 2714 atkvæði, kjörsókn var því 61,7 %. Auð og ógild voru 78 atkvæði. Í 1. sæti var Kristján Þór Júlíusson með 2223 atkvæði. í  2. sæti  (í 1.–2. sæti) var Valgerður Gunnarsdóttir með 1291 atkvæði. og í 3. sæti  (í 1.–3. sæti) var Ásta Kristín Sigurjónsdóttir með 1158 atkvæði.   

Þessar tölur segja meira en mörg orð um hve lítilfjörlegur flokkur Steingríms J. er í kjördæmi hans, aðeins tæplega 10% af þeim sem kusu í prófkjöri sjálfstæðismanna tók þátt forvali hjá VG. Það þarf ekki góðan dóm fyrir Ísland í Icesave-málinu til að risið lækki á Steingrími J. Nú ráðast Jóhanna og Steingrímur J, ekki á Sjálfstæðisflokkinn heldur segja að allir eigi að fagna „en ekki leita að sökudólgum“. Þau stjórnuðu landsdómsaðförinni að Geir H. Haarde.