23.1.2013 23:00

Miðvikudagur 23. 01. 13

Á vefsíðu sveitarstjórnar Rangárþings eystra birtist þessi texti í gær, þriðjudaginn 22. janúar:

„Borun holunnar [í leit eftir heitu vatni] lauk föstudaginn 18. janúar 2013. Þá var dýpi hennar 250 metrar. Jarðlagaskipti eru í um 190 metrum. Ofan við þau eru tiltölulega ungar gosmyndanir en fyrir neðan afgamall berggrunnur. Holan var hitamæld mánudagsmorguninn 21. janúar. Þá kom í ljós að holan fór á stigul neðan við 190 metra eins og við var búist. Hitastigullinn reynist vera um 105°C/km. Ofan við 190 metra er 13-14°C heitt vatnskerfi ríkjandi.

Holan var einnig dæluprófuð með stangir niður á 100 metra dýpi. Upp úr henni komu um 55 l/sek af um 14°C heitu vatni. Niðurdráttur var sáralítill svo holan getur afkastað mun meira magni með niðurdrætti.

Nú verður farið í að vinna úr þeim gögnum sem safna var við borunina.“

Leikmaður skilur þennan texta á þann hátt að þarna hafi fundist heitt vatn og vísbendingar séu um meira sé borað dýpra. Mér er sagt að 13-14°C heita vatnið í þessu magni dugi til að mynda hitaveitu með varmadælu.

Fljótshlíðin hefur verið talin kalt svæði og þegar ég spurðist fyrir um áhuga á borunum fyrir nokkrum árum var svarið að þær myndu ekki skila árangri. Við lögðum hins vegar ekki árar í bát. Sjálfstæðismenn í sveitarstjórnin lögðu fram tillögu um að hugað yrði að leit að heitu vatni. Tillagan var samþykkt og Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri beitti sér fyrir framkvæmd hennar.

Það verður spennandi að sjá hvað sveitarstjórnin ákveður þegar þessi niðurstaða liggur fyrir. Borað var í landi sveitarfélagsins við félagsheimilið Goðaland.