12.1.2013 22:05

Laugardagur 12. 01. 13.

Þegar við ókum að borholunni við Goðaland þar sem upp streymdi rúmlega 13° heitt vatn í vikunni var allt rólegt og ekkert vatn streymdi úr holunni. Okkur var sagt að vatnið rynni nú niður í gljúpt bergið. Síðar í dag fréttum við að vatn streymdi að nýju úr holunni og mætti álykta að sprungur í bjarginu hefðu fyllst.

Þjóðvegurinn hefur verið rofinn skammt frá innkeyrslunni að Goðalandi og lagt rör út í Kvoslækjarána frá borholunni. Þetta er gert til að ekki myndist tjörn sem loki leiðinni að félagsheimili Fljótshlíðinga.

Það verður spennandi að fylgjast með framvindu leitarinnar að heitu vatni í Fljótshlíðinni sem hefur verið talin kalt svæði til þessa.

Í ljós kemur að fjölmiðlamenn sem krefja aðra sagna búa yfir upplýsingum sem lýsa eðli Baugsmiðlanna og framgöngu eiganda þeirra sem leggur sig fram um að þagga niður í öllum sem hann telur ögra sér, meira að segja prentvillupúkanum. Sjá þetta nýja dæmi um þöggunaráráttu fjölmiðlakóngsins.