11.1.2013 22:50

Föstudagur 11. 01. 13.

Í dag var gamall og góður vinur minn, Sverrir Þórðarson, blaðamaður á Morgunblaðinu jarðsunginn af séra Hjálmari Jónssyni í Dómkirkjunni. Sverri kynntist ég fyrst á sjötta áratugnum þegar ég tók að venja komur mínar á blaðið og hóf síðan störf þar sem sendill á kvöldvöktum með skóla. Hann sýndi mér alla tíð mikla vinsemd en við unnum saman á blaðinu í marga áratugi auk þess sem ég hitti hann oft á förnum vegi eftir að hann hætti þar fyrir aldurs sakir árið 1992.

Eftir að ég hóf þingmennsku ræddum við oft saman á Austurvelli þegar hann var þar á göngu frá heimili sínu við Suðurgötu. Þá áttum við skemmtilegar stundir saman hjá Guðlaugi Jónssyni (Gulla) í hárgreiðslustofunni Nikk við Kirkjutorg þar til húsnæði þessarar elstu rakarastofu borgarinnar var selt árið 2006. Var oft glatt á hjalla þegar við hittumst þar. Sverrir var einn viðskiptavina Gulla sem fylgdu honum á Seljaveginn og fengu að koma til hans þar til Gulli andaðist í september árið 2009. Blessuð sé minning hans.

Ég kveð Sverri með söknuði og þakklæti. Blessuð sé minning hans.