27.10.2012 17:15

Laugardagur 27. 10. 12

Hér hefur oftar en einu sinni verið vikið að augljósri hlutdrægni Egils Helgasonar sem stjórnar tveimur umræðuþáttum á ríkisútvarpinu annars vegar um stjórnmál og hins vegar bókmenntir. Hvorugur þátturinn kemst á blað þegar greint er frá 10 þáttum sem vekja mestan áhuga áhorfenda. Hefur verið bent á að í því felist virðingarleysi við lög ríkisútvarpsins að láta jafnhlutdrægan mann annast þætti af þessum toga.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er vakið máls á hlutdrægni ríkisútvarpsins og varpað fram hugmynd um að fólk fái að ákveða með því að haka í box hvort það vilji kaupa þjónustu þessarar opinberu stofnunar sem kostuð er með nefskatti eða beina skattinum annað.

Egill Helgason bregst illa við þessu og ræðst að Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins. Viðbrögð Egils sýnast þó mildileg þegar leitað er álits Páls Magnússonar útvarpsstjóra og hann segir á Eyjunni:

„Það er ekki lengur hægt að svara því sem frussast út um samanbitna kjálkana á Davíð þegar hann fjallar um RÚV. Þetta er eins og það skrýtnasta í kveðskap Æra-Tobba – eitthvað illskiljanlegt og samhengislítið garg út í loftið. En Tobbi verður að njóta sannmælis. Flest það sem hann samdi er auðvitað miklu gáfulegra en heiftarþruglið í Reykjavíkurbréfum Davíðs.“

Heilbrigð dómgreind er mikill kostur við öll störf og ætti að vera skilyrði við ráðningu ríkisútvarpsstjóra. Dómgreindarskorturinn í toppnum á Efstaleitinu skýrir þaulsetu Egils við þáttastjórn og að vinsælasta efni sjónvarpsins er það sem er endursýnt frá fyrri áratugum. Hvað skyldi gert við nefskattinn?

Þess skal getið að stjórnlagaráðsliðinn Illugi Jökulsson kemur Agli og Páli til hjálpar á hinn mannúðlega hátt að heimta að fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins verði sviptir málfrelsi og bannað að segja álit sitt á málefnum líðandi stundar. Skyldi hann að nýju fá frjálsar hendur í Efstaleiti? Þaðan hvarf hann á sínum tíma til starfa hjá Baugsmönnum þegar þeir unnu gegn Sjálfstæðisflokknum með Samfylkingunni.