16.10.2012 23:55

Þriðjudagur 16. 10. 12

Nú hafa þættir mínir á ÍNN í september verið settir á netið. Hér má sjá viðtal við Jón Helga Guðmundsson í Byko og hér við Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóra Þjóðmála.

Ég fræddist enn um bandarísku byltingarsöguna hér í Boston í dag. Nýlega hefur safn um Tea Party þáttinn í henni verið opnað. Kjarni þess máls er að nýlendubúarnir í Boston vildu ekki sætta sig við að breska þingið legði á þá skatta. Fólkið sjálft ætti að kjósa þá sem legðu á það skatta.

Sagt er frá því á netinu að Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, hafi flutt ræðu í dag í Valhöll um reynslu sína af mótmælunum fyrir og eftir áramót 2008/2009. Hann hefur ritað frásögn um málið fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Skýrslan hefur hvergi verið birt og enginn utan lögreglustöðvarinnar hefur fengið að sjá hana.

Geir Jón rifjar upp þegar Álfheiður Ingadóttir, núv. þingflokksformaður VG, stóð fyrir fram lögreglustöðina við Hlemm og öskraði hvatningarorð til þeirra sem gerðu árás á lögreglustöðina. Geir Jón segir að mest hætta hafi steðjað að alþingi þegar mótmælendur ruddust þar inn í byrjun desember 2008. Þá stóð Álfheiður með farsímann við gluggann í Kringlu þinghússins.

Eva Hauksdóttir sem varð sér til skammar með gjörningi í gervi nornar fyrir framan Stjórnarráðshúsið fór í fylgd Geir Jóns í hús Seðlabanka Íslands og gekk á fund Davíðs Oddssonar. Eva vill fá aðgang að skýrslu Geir Jóns. Skyldi hann segja frá Evu fyrir og eftir fundinn með Davíð?