10.10.2012 23:50

Miðvikudagur 10. 10. 12


Tókum daginn rólega hjá gestgjöfum okkar í Hamden útborg New Haven þar sem þau hafa innréttað gamla hlöðu sem gestahús. Var ævintýri líkast að fá að gista þar. Síðdegis héldum við í Marchand Chapel sem er hluti guðfræðideildar Yale-háskóla. Rut æfði þar með kvartettinum og um kvöldið voru tónleikar í kapellunni.

Skálholtskvartettinn flutti verk eftir Boccherini, Haydn og Purcell og siðan lék Jaap Schröder einleik með American Baroque Orchestra í 3. Brandenborgarkonsert Bachs.

Var gerður góður rómur að tónleikunum og boðið upp á kaffi, kökur og ávexti að þeim loknum í „common room“ garðsins sem er aðeins fyrir utan Yale-háskólahverfið í hjarta New Haven.

Nemendur leggja hart að sér til að fá skólavist í Yale eins og öllum háskólum og þó sérstaklega þeim sem taldir eru meðal hinna bestu í heimi. Það kostar einnig sitt, skólagjöld í Yale eru 52.000 dollarar á ári, margir fá hins vegar styrki eða lækkun á þessum gjöldum vegna hæfileika sinna. Hlýtur að reyna mjög á margan nemandann í hinni miklu samkeppni innan skólans.

Við settumst í stofu í húsi gestgjafa okkar þegar heim var komið eftir tónleikana. Tvær vinkonur höfðu komið frá nágrannaríkinu Rhode Island til að hlusta á tónleikana og gistu um nóttina. Önnur hafði ferðast um Ísland, hin þekkti Harald Sigurðsson eldfjallafræðing frá því að hann bjó í Jamestown Rhode Island og dætur hans Áshildi og Bergljótu.