4.10.2012 22:50

Fimmtudagur 04. 10. 12

Fyrstu mínúturnar af kappræðum Mitts Romneys og Baracks Obama að kvöldi miðvikudags 3. október í Denver, Kólóradóríki, duga til að sjá yfirburði Romneys. Dómarnir um framgöngu Obama í bandarískum fjölmiðlum eru harðir. Einn reyndur álitsgjafi segist ekki hafa séð nokkurn mann bursta forsetann í sjónvarpseinvígi eins og Romney gerði síðan Ronald Reagan tók Jimmy Carter í bakaríið árið 1980, fyrir 32 árum, og raunar sé Carter gert rangt til með samanburðinum við Obama.

Skýringarnar á óförum Obama eru jafnmargar og mennirnir sem gefa þær. Þrjár skulu nefndar: (a) Obama hafði ekki texta á skjá (telepromter) fyrir framan sig. Án slíks hjálpartækis verður hann eins og fiskur á þurru landi. (b) Romney hefur háð svo mörg sjónvarpseinvígi á leið sinni á framboðstoppinn hjá repúblíkönum að þau eru honum leikur einn. (c) Obama forðast fundi með fréttamönnum eins og heitan eldinn, hann leyfir aðeins drottningarviðtöl við vinveitta spyrjendur eins og David Letterman, honum hefur því verið hlíft við gagnrýni á borð við þá sem Romney flutti.

Egill Helgason umræðustjóri ríkissjónvarpsins og King Kong bókaheimsins að mati markaðsstjóra ríkisútvarpsins brást illa við kappræðum Romneys og Obama. Hann greip til þess frumlega ráðs á vefsíðu sinni að lýsa frati á kappræðurnar almennt, þær væru markleysa og líktust búktali! Fyrir nokkrum árum var Egill óánægður með eitthvað sem stóð í vikuritinu The Economist og sagði þá hreina tímasóun að lesa svo afdankað, uppskrúfað blað. Ambrose Evans-Pritchard, alþjóðlegur viðskiptaritstjóri The Daily Telegraph í London, er einn þeirra sem Egill hefur bannfært.

Útskúfun af þessu tagi með opinberum yfirlýsingum er almennt undarleg. Af þessu þrennu er þó reiðin yfir sjónvarpseinvígi forsetaframbjóðendanna undarlegust og raunar óskiljanleg hjá reyndum sjónvarpsmanni. Áhorfið á kappræðurnar er gífurlegt, umtalið enn meira og áhrifin marktæk. Er unnt að biðja um meira vegna sjónvarpsþáttar?