3.10.2012 21:40

Miðvikudagur 03. 10. 12

Í grunnskólalögum frá 2008 segir að ráðherra sé heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélags um stofnun skólans. Heimilt er að binda samþykki sveitarfélags við ákveðinn hámarksfjölda nemenda. Um slíka grunnskóla gilda sömu lög og reglur og um grunnskóla skv. 1. gr., eftir því sem við á. Þar á meðal skal af hálfu viðkomandi skóla fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem kæranlegar eru skv. 47. gr. Það á þó ekki við um ákvarðanir um gjaldtöku.

Enginn efast um að menntamálaráðherra hafi viðurkennt Hjallastefnuna sem rekstraraðila sjálfstæðra grunnskóla. Starfsemi hennar eykst jafnt og þétt eins og til dæmis má sjá á framkvæmdum í jaðri Öskjuhlíðar fyrir norðan Háskólann í Reykjavík.

Nú kemst ráðuneytið að því að sveitarfélag verði sjálft að reka grunnskóla og þess vegna megi það ekki semja við þá sem reka Hjallaskóla um að annast grunnskólastarfsemi í Tálknafirði. Túlkun ráðuneytisins er sem sagt sú að Hjallasstefnan geti aðeins starfað í sveitarfélagi þar sem annar grunnskóli sé rekinn af sveitarfélaginu. Á vefsíðu VG Smugunni segir í dag:

„Í bréfi menntamálaráðuneytisins kemur fram að hvert sveitarfélag þurfi að reka eigin grunnskóla, samkvæmt lögum. Þá hafi Hjallastefnan ekki hlotið viðurkenningu ráðuneytisins.“

Síðari málsliðurinn er rangur. Hjallastefnan hefur fengið viðurkenningu ráðuneytisins. Hvar stendur í lögum að ráðuneytið verði að samþykkja hvern skóla sem rekinn er af Hjallastefnunni? Segir ekki einmitt í ofannefndri lagagrein að samþykki sveitarfélags sé skilyrði fyrir stofnun sjálfstæðs skóla á vegum viðurkennds einkaaðila?

Allt bendir til að pólitísk sjónarmið ráði túlkun ráðuneytisins á grunnskólalögunum, andstaða við grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum. Enginn efast um að sveitarstjórn Tálknafjarðar hafi samþykkt að fela Hjallastefnunni undir forystu Margrétar Pálu að reka grunnskóla sveitarfélagsins.