1.10.2012 23:30

Mánudagur 01. 10. 12

Umræðustjóri hins óhlutdræga ríkisútvarps, Egill Helgason, hefur hafið deilur við stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna um hvaða ríkisstjórn sé hin versta sem þjóðin hefur kynnst. Hann reisir skoðun sína á pólitísku tilfinningalífi og þrá til að hlut ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sem bestan. Egill mun vega að Sjálfstæðisflokknum á kosningavetri og er tekinn til við að kalla fulltrúa minnihlutasjónarmiða, eins og aðildar Íslands að ESB, í þáttinn til sín undir þeim formerkjum að þeir kynni þar sjónarmið sjálfstæðismanna. Iðja af þessu tagi er einn svartasti bletturinn á pólitískri fréttamennsku ríkisútvarpsins. Við henni verður ekkert annað gert en vekja athygli á henni og benda þeim sem enn horfa á Silfur Egils á að átta sig á fyrirvörunum sem nauðsynlegt er að hafa við áhorfið.

Í Kastljósi kvöldsins sást vel hve veikan málstað Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar og handlangari Steingríms J. Sigfússonar, hefur að verja þegar að því kemur að rökstyðja ofsóknir hans í garð Sveins Arasonar ríkisendurskoðanda og starfsmanna ríkisendurskoðunar. Björn Valur sagði að ríkisendurskoðun hefði ekki vakið máls á því við fjárlaganefnd að í fjárlögum væri veitt fé til fjársýslunnar vegna gallaðs tölvukerfis.

Hafi moldviðri undanfarinna daga leitt eitthvað í ljós er það að ríkisendurskoðun lauk ekki vinnu við skýrslu sem leiddi að hennar mati til endanlegrar niðurstöðu. Vill Björn Valur reka ríkisendurskoðanda fyrir segja eitthvað með vísan til verks sem ekki er að fullu lokið?

Þetta er dæmalaus krafa um brottrekstur háttsetts embættismann sem starfar í umboði alþingis. Krafan er reist á öðru en málinu sem er átylla hennar. Innan ríkisendurskoðunar hljóta menn að velta fyrir sér hvað raunverulega býr að baki hjá Birni Vali. Þeim ber skylda til að kanna það og upplýsa almenning um niðurstöðuna.

Kastljósið  heldur áfram að kasta rýrð á þetta tölvukerfi ríkisins, nú með tilvitnun í skýrslu frá PwC frá 2010, öryggisúttekt á kerfinu. Rætt var við sérfróðan mann sem taldi víst að skýrslan hefði leitt til umbóta á kerfinu. Þetta voru sem sagt engin tíðindi, málið þjónaði hins vegar tilgangi Kastljóss og þá halda engin bönd almennrar skynsemi.