23.9.2012 23:55

Sunnudagur 23. 09. 12

Í dag voru réttir Fljótshlíðinni í mildu veðri.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir á vefsíðu sinni 23. september:

„En hvers vegna skyldu róttækir frjálshyggjumenn, eins og Þór Whitehead og Hannes Hólmsteinn, vera að skrifa sagnfræði- og myndabækur um löngu dauða hugmyndafræði? Eða halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum?

Þetta segir Stefán vegna þess að RNH-stofnunin efndi laugardaginn 22. september til ráðstefnu þar franski sagnfræðiprófessorinn Stéphane Courtois, sem var ritstjóri og einn af höfundum Svartbókar kommúnismans, en hún kom út hjá Háskólaútgáfunni 2009 var meðal ræðumanna og auk þess Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland, sem kom út í ár á íslensku hjá Uglu og hefur hlotið góða dóma. Þór Whitehead prófessor flutti samantekt um niðurstöður ráðstefnunnar í lok hennar. Hannes Hólmsteinn og Þór eru í forustu fyrir RNH.

Að prófessorar í stjórnmálafræði og sagnfræði standi að ráðstefnu með erlendum fræðimönnum og höfundum um kommúnismann og áhrif hans ætti ekki að þykja undrunarefni. Þessi stjórnmálahugsjón hafði verulega mikið að segja hér á landi og þeir sem henni héldu á loft höfðu festst í alþjóðlegu neti sem enn er verið að kortleggja. Þetta net tengdi anga sína hingað og er þess vegna hluti íslenskrar sögu,

Helst mætti ætla að öfund byggi að baki skrifum Stefáns Ólafssonar um framtak starfsbræðra sinna við Háskóla Íslands, hann sjái ofsjónum yfir að þeir nái slíkum höfundum hingað til lands á málþing. Varla verður því trúað að Stefán sé andvígur umræðum um hlut kommúnismans í stjórnmála- og mannkynssögunni? Maður með slíkt viðhorf á heima annars staðar en í háskóla.