19.9.2012 22:50

Miðvikudagur 19. 09. 12

Einhver ætti að taka sig til og taka saman höfuðatriði í öllum ræðunum sem Jóhanna Sigurðardóttir flutti um ábyrgð ráðherra þegar hún var utan ríkisstjórnar. Málflutningur hennar þá er í hróplegri andstöðu við ábyrgðarleysi hennar sem forsætisráðherra. Hún virðist ekki átta sig á ábyrgð forsætisráðherra á ráðherrum í ríkisstjórninni. Henni er sama hvaða axarsköft eru unnin við embættisfærslu, ráðherrar sitja og sitja.  Að vísu lét hún Jón Bjarnason og Árna Pál Árnason taka pokana sína. Þeir sýndu ekki nægilega pólitíska undirgefni.

Sigurður Sigurðsson, afkastamikill bloggari, segir um Guðbjart Hannesson velferðarráðherra að í launamálum forstjóra Landspítala hafi hann gerst sekur um pólitísk afglöp sem ættu að leiða til afsagnar.

Undir þetta skal tekið. Guðbjartur varð strax á fyrsta sólarhring umræðna um þetta vandræðamál margsaga. Hann stóð svo klaufalega að málinu að hann gróf undan trausti starfsmanna Landspítalans í garð Björns Zoëga. Forstjórans bíður nú hið erfiða verkefni að lækna þetta mikla sár. Líklegt er að það verði ekki auðvelt í umboði þessa ráðlausa ráðherra.

Fyrsta frétt í ríkisútvarpinu í morgun var að í skjóli nætur hefði verið ákveðið að hætta við brottvísun hælisleitanda frá Nígeríu. Mál hans hafði hlotið fullnaðarafgreiðslu í útlendingastofnun og innanríkisráðuneyti. Á ábyrgð Ögmundar Jónassonar hafði ráðuneytið úrskurðað að vísa ætti manninum úr landi til Svíþjóðar. Að venju í slíkum málum handtók lögregla manninn og bjó hann undir brottför næsta dag, að morgni þriðjudags 18. september.  

Að sögn ríkisfréttastofunnar rauf Ögmundur hið lögbundna ferli að næturlagi til að hælisleitandinn gæti látið reyna á afgreiðslu ráðuneytis Ögmundar fyrir dómstólum. Var sagt að þetta væri gert af því að maðurinn hefði ekki vitað um rétt sinn til að skjóta ákvörðuninni sem tekin var á pólitíska ábyrgð Ögmundar til dómstólanna. Einnig var gefið til kynna að af þessari ástæðu hefði maðurinn fengið nýjan lögfræðing. Katrínu Oddsdóttur. Hún vakti þjóðarathygli með öfgafullum málflutningi á útifundum á Austurvelli 2008-2009 og hefur auk þess setið í stjórnlagaráði.

Allur er þessi málatilbúnaður með nokkrum ólíkindum. Ríkisfréttastofan sagði að Ögmundur Jónasson hefði ákveðið „að grípa inn í málið og stöðva brottvísun mannsins svo tryggt yrði að hann nyti réttlátrar  málsmeðferðar“. Málsmeðferðin til þessa hefur verið á ábyrgð Ögmundar – efast hann um að embættismenn útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytis hafi farið að lögum? Embættismönnum sem búa við slíkt vantraust yfirmanns síns eru ekki auðvelduð störfin.