16.9.2012 18:25

Sunnudagur 16. 09. 12

Hinn 12. september ræddi ég við Jón Helga Guðmundsson sem oftast er kenndur við Byko í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn er kominn á netið og má sjá hann hér

Þýski stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe hefur verið til umræðu undanfarna daga vegna úrskurðarins sem felldur var þar miðvikudaginn 12. september um aðild Þýskalands að björgunarsjóði evrunnar (ESM) og ríkisfjármálsamningi ESB-ríkjanna.  Dómararnir eru 16 í Karlsruhe og starfa í tveimur átta manna deildum. Því er haldið fram að enginn dómstóll í heimi fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna hafi jafnmikið vald og þýski stjórnlagadómstóllinn.

Dómstóllinn kom til sögunnar árið 1951 og var honum valinn staður í Karlsruhe í Baden-Württemberg  300 km fyrir sunnan Bonn sem þá var höfuðborg  V-Þýskalands. Tilgangurinn var að dómararnir yrðu utan seilingar stjórnmálamanna og hagsmunamiðlara og nytu því betri starfsfriðar en ella.  Dómarar eru valdir að hálfu af 69 þingmönnum í Bundesrat, efri deild, þýska þingsins, og að hálfu af 12 manna nefnd þingmanna úr Bundestag, neðri deild þýska þingsins.  Lögfræðingar eru kjörgengir séu þeir 40 ára eða eldri og til að ná kjöri verða þeir að fá tvo þriðju atkvæða. Kerfið leiðir til þess að samstaða er um val í dómstólinn þar sem menn sitja í 12 ár eða fara á eftirlaun 68 ára. Mikil leynd hvílir yfir öllu ferlinu við val dómaranna og sagði þýska vikublaðið Die Zeit einhverju sinni að hún væri meiri en við kjör páfa.

Stjórnlagadómstóllinn nýtur mikils trausts í Þýsklandi (75%), forsetaembættinu er treyst af 63%, þingið 40% og ríkisstjórnin 38%. Framkvæmdastjórn ESB nýtur aðeins 22% trausts meðal Þjóðverja.

Á 60 ára ferli sínum hefur dómstóllinn lýst 450 lagatexta ósamrýmanlega stjórnarskránni. Hann hefur fjallað um afgreiðslutíma verslana á sunnudögum, beitingu þýska hersins innan landamæra Þýskalands, kristna krossa í skólum, rétt til hælis og síðan fjölda mála varðandi fjárhagslegan stuðning við Grikki og til björgunar evrunni. Eðli málsins samkvæmt hafa þýskir stjórnmálamenn gjarnnan horn í síðu dómaranna í Karlsruhe og stundum er spurt hvort eðlilegt sé að átta dómarar geti tekið fram fyrir hendur á þjóðkjörnum þingmönnum.  Er meira að segja tala um „Karlsruhe-lýðræði“ þar sem vilji hinna þjóðkjörnu fái ekki að njóta sín. Við því verður hins vegar ekki hnekkt án stjórnarskrárbreytingar sem ekki er á döfinni.