23.8.2012 18:45

Fimmtudagur 23. 08. 12

Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, heldur úti vefsíðu þar sem hann vekur athygli á misfellum í fjölmiðlum og nefnir stundum fleira til sögunnar eins og í pistli sínum í dag þegar hann segir um sex ára gamalt atvik sem tengist Árna Johnsen og handhöfum forsetavalds: „Hann [Ólafur Ragnar] er líklega búinn að gleyma því að þeir [handhafarnir] lögðu mikla vinnu í að náða fingralangan alþingismann svo hann gæti farið í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir ekki svo ýkja mörgum árum.“ Þessi fullyrðing á ekki erindi á vandaða vefsíðu sem snýst um að fjölmiðlamönnum  beri að segja satt og rétt frá málum. Handhafarnir lögðu enga vinnu í að náða Árna Johnsen því að engin tillaga um það var lögð fyrir þá. Árni átti hins vegar lögbundinn rétt til þess eins að fá uppreist æru. Forseti eða handhafar rita undir slík skjöl og brjóta einfaldlega rétt á viðkomandi sé því neitað. Það er ósæmilegt að halda öðru fram og einelti að nefna þar aðeins einn mann til sögunnar. Ég fjallaði nokkrum sinnum um þetta mál hér á síðunni á sínum tíma eins og til dæmis má sjá hér.

Ein undarlegasta þráhyggja í umræðum um áhrif breytinga á norðurslóðum er sú skoðun að tómt mál sé að tala um að umskipunarhöfn verði á Íslandi.  Fyrir því eru mun sterkari rök að svo verði en ekki. Scott Borgeson sem ritaði fræga grein um norðurskautið í Foreign Affairs 2008 sagði við mig að Ísland gæti orðið Singapore norðursins. Hann átti við að skipaumferðin gæti orðið af þeim toga á þessum slóðum, kannski sá hann fyrir að áhugi Kínverja yrði mikill á eyjunum í Norður-Atlantshafi ekki síður en á Suður-Kínahafi og þeir mundu fjölmenna til þeirra eins og til Singapore.

Vissulega er umhugsunarefni hvort áhugi Kínverja á að skapa sér aðstöðu hér á landi tengist ESB-aðildarumsókn Íslands og viðleitni til að spilla fyrir henni. Engir stjórnmálamenn hafa lagt sig meira fram um að búa í haginn fyrir Huang Nubo en Samfylkingarfólk sem stefnir jafnframt að aðild Íslands að ESB. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hreykir sér af þingsályktun um norðurslóðastefnu Íslands. Hann er einnig helsti talsmaður ESB-aðildar. Þeir sem segja að umræður um Nýja norðrið sé „blanda af hugarleikfimi og pólitískri áróðurstækni“ gegn ESB verða að rökstyðja skoðun sína.