22.8.2012 21:10

Miðvikudagur 22. 08. 12

Í dag ræddi ég við Jóhann Sigurjónsson, forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um makrílstofninn og sókn hans á Íslandsmið og einnig um þróun þorskstofnsins og ýsustofnsins. Þátturinn verður næst sýndur klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til og með klukkan 18.00 á morgun.

Í Morgunblaðinu í dag birtist forsíðufrétt um sex konur frá Nígeríu sem hefðu leitað hælis hér á skömmum tíma, vanfærar eða með börn. Þótt hvergi sé vikið að því í fréttinni má álykta af henni að um skipulagða sókn til Íslands sé að ræða með það að markmiði að komast hér í skjólið sem innanríkisráðherra hefur boðað fyrir hælisleitendur. Ef til vill verður upplýst við meðferð hælisumsóknanna hvort sami aðili standi að baki komu kvennanna hingað til lands.

Á þessu sviði er um skipulagða,  arðbæra starfsemi að ræða. Óhjákvæmilegt er að draga athygli að þeirri hlið í umræðum um málefni hælisleitenda til að almenningur sjái alla myndina.