8.8.2012 23:50

Miðvikudagur 08. 08. 12

Í dag ræddi ég við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í þætti mínum á ÍNN. Hann gerði grein fyrir þróun löggæslumála við erfiðar fjárhagslegar aðstæður. Þáttinn má sjá á tveggja tíma fresti fram til klukkan 18.00 fimmtudaginn 8. ágúst.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, ritstjóri vefsíðunnar Smugunnar, skrifar þar í dag:

„Smugan er eini fjölmiðillinn á Íslandi sem hefur kannast við að vera vinstra vefrit og að hluta í eigu stjórnmálaflokks. Vegna þessa hefur hún ítrekað verið kölluð málgagn VG af öðrum miðlum, meðal annars Morgunblaðinu, en þótt það blað sé í eigu stórútgerðarmanna og tali máli ákveðinnar klíku innan Sjálfstæðisflokksins sem stendur vörð um stóreignafólk, er það virðulegra en svo að það kallist málgagn. Útrásarvíkingar hafa líka átt og rekið blöð, en jafnvel á tímum þar sem þeir eru helsta fréttaefnið eru fjölmiðlar þeirra ekki grunaðir um að vera málgagn.“

Mér þykir sérkennilegt að lesa þetta eftir áralanga gagnrýni á mig og aðra sem kölluðum fjölmiðla Baugsmanna einu nafni Baugsmiðla og sættum ámæli ef ekki svívirðingum fyrir. Margir þeirra sem á miðlunum störfuðu töldu vegið að heiðri sínum og jafnvel mannorði þegar sagt var að þeir ynnu á Baugsmiðlum. Viðhorfið breyttist fljótt eftir að þessu fólki var sagt upp störfum og síðan enn meira eftir hrunið. Hallgrímur Helgason rithöfundur sem skrifaði í þágu Baugsmanna allan útrásartímann viðurkenndi meira að segja eftir hrun að sér hefði skjátlast, auðvitað hefðu verið til Baugsmiðlar.