7.8.2012 18:45

Þriðjudagur 07. 08. 12

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur ritar grein í Morgunblaðið í dag og segir meðal annars:

„Stjórnvöld hafa hafnað endurnýjun stjórnsýslunnar með notkun upplýsingatækni mest alla þessa öld, en Ísland kemur mjög illa út úr alþjóðlegum mælingum á umbreytingu þjónustu hins opinbera með notkun netsins, er jafnvel lakast í Evrópu. Svarið við ofvöxnu ríkiskerfi felst ekki í beinum niðurskurði þess, þótt það eigi stundum við, enda hefur velferðarkerfið sjaldan sýnt mikilvægi sitt eins greinilega og í efnahagsörðugleikunum.

Hins vegar mættu íslensk stjórnmálaöfl sameinast um að endurbæta vinnubrögð stjórnsýslunnar með notkun upplýsinga- og samskiptatækni og auka með því skilvirkni í opinbera geiranum, minnka umsvif hans og bæta þjónustu. Og setja upp samskiptanet við einkamarkaðinn og reyna að koma á virkum samkeppnismarkaði á sviðum opinberrar þjónustu. Slíkar aðgerðir ynnu vel með efnahagsbatanum sem nú er að hefjast og gætu flutt störf frá ríkinu út á vinnumarkaðinn eftir því sem hann tekur við fleirum.

Fá verkefni eru líklegri til þess að auka samkeppnishæfni Íslands.“

Fyrir 20 árum höfðu margir miklar áhyggjur af því að íslensk stjórnvöld sýndu upplýsingatækni og þróun hennar ekki nægilegan áhuga. Skipulegt átak var gert á þessu sviði undir forystu ríkisstjórnarinnar um miðjan tíunda áratuginn og vissulega hefur margt áunnist.  Á mörgum sviðum hefur starfsumhverfi tekið stakkaskiptum.

Viðvörunarorð Hauks í grein hans eiga við rök að styðjast þegar litið er til hinna alþjóðlegu mælinga. Sem ráðherra menntamála annars vegar og dómsmála hins vegar leitaðist ég við að ýta undir notkun upplýsingatækni og víða var rösklega tekið til hendi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að almenn stefnumótun á vegum ríkisins um nýtingu upplýsingatækni hafi staðnað á einhverjum stað innan stjórnkerfisins vegna skorts á pólitískum áhuga og smákóngaræðis þar sem hver vill gæta þess reits sem hann hefur helgað sér.

Sérfróðir menn verða að skýra betur á opinberum vettvangi hvaða svið það eru í opinberum rekstri sem draga Ísland niður í hinum alþjóðlega samanburði. Þá ber stjórnmálamönnum að taka málið upp á sína arma og fela einkaaðilum að hefja nýja sókn sambærilega við þá sem réð undir lok síðustu aldar og í upphafi hinnar nýju.