3.8.2012 23:55

Föstudagur 03. 08. 12

Fréttir frá Danmörku um fjölgun hælisleitenda þar eftir að ríkisstjórnin breytti um stefnu í málefnum þeirra koma heim og saman við það sem ég hef sagt hér á síðunni um áhrif stefnubreytingar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í málefnum hælisleitenda. Er með ólíkindum að álitsgjafi um íslensk stjórnmál sé svo forstokkaður í pólitískri rétthugsun að hann átti sig ekki á að um pólitískt átakamál er að ræða.

Samhliða því sem hælisleitendum fjölgar í Danmörku reyna fleiri þeirra að laumast úr landi með Norrænu hingað til lands eins og skýrt var frá í fréttum ríkisútvarpsins í dag. Þessu viðfangsefni verður ekki stungið undir stól hvorki á pólitískum vettvangi né annars staðar.

Í gær ræddi ég umferðina á Suðurlandi. Veðurblíðan í dag dregur ekki úr áhuga manna á ökuferðum um það. Ég taldi að þeir sem héldu umferð niðri gætu ekki síður verið hættulegir en hinir sem aka of  hratt. Glöggur lesandi síðunnar sendi mér þessa ábendingu:

„ Í 3. mgr. 36. gr. umferðarlaga segir:

„Ökumaður má eigi að óþörfu aka svo hægt eða hemla svo snögglega að tefji eðlilegan akstur annarra eða skapi hættu.

Refsiákvæði umferðarlaganna eiga við þessa grein eins og aðrar. Vandamálið fyrir lögregluþjóninn er að hér yrði að styðjast við mat á aðstæðum en ekki er í boði hlutlæg regla um hámarkshraða sem svo má bera saman við mældan hraða. Það er sennilega skýringin á því að sjaldan eða aldrei er sektað fyrir of hægan akstur. (Fyrir nú utan að menn vilja ekki hvetja fólk til að aka hraðar en það ræður við).

En strangt til tekið virðist mega sekta menn sem aka of hægt. Þetta er t.d. mikilvægt ákvæði ef menn tækju upp á því að halda umferð niðri með því að aka á 10 km hraða, t.d. sem einhvers konar „aðgerð“.“