31.7.2012 23:20

Þriðjudagur 31. 07. 12

Ársskýrsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir 2011 er komin út. Þar segir meðal annars:

„Frá upphafi hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu unnið að því að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dvelja í umdæminu. Hér er um grundvallarmarkmið að ræða og því má aldrei sofna á verðinum. Árangurinn hverju sinni er mældur í árlegri viðhorfskönnun, sem embættið lætur framkvæma. Sumarið 2011 var slík könnun lögð fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu, er yfirgnæfandi meirihluti svarenda taldi sig vera örugga (mjög eða frekar) eina á gangi að næturlagi í sínu hverfi eða byggðarlagi. Þá töldu tæplega 85% þátttakenda lögregluna skila mjög eða nokkuð góðu starfi í sínu hverfi.“

Stefán Eiríksson lögreglustjóri lýsir árangri samstarfsmanna sinna réttilega sem „afreki“ í inngangi skýrslunnar þegar að því er hugað að árangurinn hefur náðst á sama tíma og krafist hefur verið niðurskurðar og mikils aðhalds í rekstrinum. Lögreglustjórinn segir:

 „Þessi góði árangur er ekki síst áhugaverður í ljós þess mikla niðurskurðar sem embættið hefur staðið frammi fyrir á undanförnum árum. Niðurskurðarkröfunni hefur verið mætt með margvíslegum hætti, starfsfólki hefur fækkað verulega, breytingar hafa verið gerðar á skipulagi og vaktakerfum, verkefnum hefur verið hætt og allra leiða leitað til að hagræða og spara í rekstri svo fátt eitt sé nefnt. Gætt hefur verið að því að þessar aðgerðir hafi sem minnst áhrif á möguleika lögreglunnar til að sinna grunnþjónustu og bráðatilvikum. Með hliðsjón af öllu þessu er ekki hægt að lýsa þeim árangri sem starfsfólk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur náð á undanförnum árum öðruvísi en svo að kalla það afrek.“

Stefán telur að „allt of langt“ hafi verið gengið í niðurskurði til löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. Afleiðingarnar komi óhjákvæmilega í ljós.

Um þessar mundir leggur ríkisstjórnin lokahönd á fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013. Þar forðast hún áfram að takast á við vanda með uppskurði á kerfum, þess í stað beitt hinni óskynsamlegu aðferð að þrengja að á öllum sviðum og fleyta sér áfram á lánum.

Árið 2011 var fjármagnskostnaður ríkissjóðs hærri en öll útgjöld til menntamála. Síðan hefur lántaka aukist. Hinn mikli fjármagnskostnaður þrengir að öllum öðrum útgjaldaliðum.