30.7.2012 23:12

Mánudagur 30. 07 12

Fréttir af evru-svæðinu bera nú með sér að ætlunin sé að hanna hjáleið framhjá stjórnmálamönnum og fela Mario Draghi, forseta bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, að bera hita og þunga evru-björgunarstarfsins. Hann þarf ekki að standa neinum kjósendum reikningsskil og stjórnmálamenn geta sagt hið sama og Jean-Claude Juncker, formaður evruhópsins, sagði í viðtali við Le Figaro sem birt var í dag: Stjórnmálamönnum dettur ekki í hug að hlutast til um málefni seðlabankans.

Þá hefur Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, verið á hraðferð í Þýskalandi. Tilgangur ferðar hans er hið sama og jafnan á örlagatímum Evrópu undanfarin 100 ár, að lýsa stuðningi við þá sem vinna að sama markmiði og Bandaríkjastjórn. Mikið er í húfi fyrir Barack Obama. Versni efnahagur Bandaríkjanna enn frekar vegna evru-vandans bitnar það á Obama í forsetakosningunum. Það vegur þyngra gagnvart kjósendum en vandræðalegar fréttir af Mitt Romney og ferðalagi hans til London, Ísraels og Póllands.

Mér finnst nokkuð langsótt að sú ályktun sé dregin af því sem ég hef sagt hér um hælisleitendur jafngildi því að málið setji svip á komandi kosningabaráttu. Ég hef ekki gert  mál hælisleitenda að flokkspólitísku máli. Vinstri-grænir hafa hins vegar gert það og ætla að gera enn betur. Það hentar greinilega ekki þeim sem telja voðaverk að ræða málefni hælisleitenda á pólitískum vettvangi að beina athygli að stefnu VG.