21.7.2012 22:30

Laugardagur 21. 07. 12

Ekki rigndi mikið fyrir vestan Eyjafjallajökul í Fljótshlíðinni í dag miðað við það sem spáð hafði verið. Skúraleiðingar voru með jöklinum. Góð demba kom þó síðdegis. Nú rýkur þurr mold í rokinu. Það mætti rigna meira til að binda hana. Rokið er minna en vænta hefði mátt miðað við viðvaranir. Húsbílar í Fljótshlíðinni eru færri en oft áður í sumar.

Þáttur minn á ÍNN með Erlendi Magnússyni framkvæmdastjóri er kominn á vefinn og má sjá hann hér.

Við ræðum gjaldmiðlamál, þróunina á evru-svæðinu og úrræðaleysi stjórnvalda gagnvart gjaldeyrishöftunum.

Verði forsetakosningarnar ógiltar af hæstarétti lendir Ólafur Ragnar Grímsson í sömu stöðu og stjórnlagaþingmennirnir sem urðu aldrei þingmenn heldur stjórnlagaráðsliðar eftir að kjör þeirra var ógilt. Skyldi Jóhanna fela Ólafi Ragnari að starfa engu að síður sem forseti? Hún hafði ákvörðun hæstaréttar um stjórnlagaþingkosningarnar að engu og meirihluti alþingis tók undir með henni. Það ætti að benda sósíalistunum í Rúmeníu sem nú eiga í stríði  við framkvæmdastjórn ESB vegna óvirðingar þeirra í garð stjórnlagadómstóls landsins á að framkvæmdastjórnin hefur ekki gert neina athugasemd við að sósíalistar í ríkisstjórn Íslands fóru í kringum ákvörðun hæstaréttar við endurskoðun sjálfrar stjórnarskrárinnar.