10.7.2012 23:12

Þriðjudagur 10. 07. 12

Skrapp til Þingvalla í sumarblíðunni í kvöld og hlustaði á Voces Thules syngja í kirkjunni sem var þéttsetin. Skrapp einnig upp á Hakið og skoðaði framkvæmdir í Almannagjá. Þær eru meiri en ég vænti og er gjáin í raun yfirbyggð þar sem hún er þrengst. Mér kom á óvart að sjá allar öryggisgrindurnar sem settar hafa verið á klettana á Hakinu auk þess sem þar er stórt hættumerki. Velti ég fyrir mér hvort orðið hafi slys sem síðan kallaði á allan þennan viðbúnað. Kafarar voru á ferð við Silfru þrátt fyrir gjaldtökuna. Hún tíðkaðist fyrir nokkrum árum en var hætt vegna skorts á lagaheimild. Síðan hafa verið sett ný lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum með gjaldtökuheimild.

Í Fréttablaðinu er sagt frá því í dag að sveitarstjórnarmenn fyrir austan Þingvallavatn séu undrandi á því að vöruflutningabílum sé bannað að aka um þjóðgarðinn úr því að nýr vegur hafi verið lagður yfir Lyngdalsheiði. Undarlegt er ef þetta bann kemur á óvart. Allt frá því umræður hófust um endurgerð vegarins yfir Lyngdalsheiði hefur verið sagt að nýr vegur þar ætti ekki að auka þungaumferð um þjóðgarðinn, það sé skylda Þingvallanefndar að koma í veg fyrir það.

Ég lenti sem formaður Þingvallanefndar í útistöðum við sveitarstjórn Bláskógabyggðar vegna vegalagningarinnar og svaraði gagnrýni hennar með löngu bréfi sem ég birti hér á síðunni á sínum tíma. Þar má finna lýsingu á afstöðu Þingvallanefndar í málinu.

Pétur M. Jónasson, prófessor í Kaupmannahöfn, gerði marga atlögu að veginum yfir Lyngdalsheiði sem hann taldi ógna lífríki Þingvallavatns. Hafði hann ekki erindi sem erfiði. Hitt er ljóst að nýi vegurinn yfir Lyngdalsheiði átti aldrei að leiða til aukinna þungaflutninga um þjóðgarðinn. Hefur vegagerðin nú sett mikil skilti rétt sunnan við Vinaskóg sem banna  umferð sem ekki er talin hæfa þjóðgarðinum. Líklegt er að innan fárra ára verði settar enn strangari reglur um ferðir ökutækja innan þjóðgarðsins.