11.6.2012 21:00

Mánudagur 11. 06. 12

Ég lét þess ekki getið í gær að á ítölskum veitingastað þar sem ég fékk mér kvöldverð snerist allt um knattspyrnuleik Ítala og Spánverja. Þjóninn spurði hvort við værum nokkuð spænsk. Ef svo væri skyldum við fara annað! Mér sýndist bærileg gleði ríkja vegna úrslitanna.

Nú er spurning, eftir að spænskir bankar hafa fengið neyðarlán, hvort fjárfestar taki Ítali næst á taugum. Greinilega er ekki allt sem sýnist varðandi Spán. Eitthvert leikrit hefur verið sett á svið svo að allir haldi andlitinu. Þeirri sýningu mun þó ljúka brátt og kaldur veruleiki markaðsaflanna segja til sín af fullum þunga að nýju.