7.6.2012 21:20

Fimmtudagur 07. 06. 12

Við sem fylgjumst náið með fréttum af því sem gerist innan ESB sjáum að allar hræringar í þýskum stjórnmálum eru undir smásjá þeirra sem vilja geta sér til um framvindu mála innan sambandsins. Stjórnarháttum Angelu Merkel hefur verið lýst á þann veg að hún tileinki sér í stjórnmálum sömu aðferðir og notaði sem vísindamaður: að stíga eitt lítið skref í einu, meta áhrif þess og síðan að búa sig undir hið næsta.

Nú hefur Merkel tekist að tryggja sér aukinn meirihluta í þýska þinginu fyrir ríkisfjármálasamningi ESB. Hún beitti sér fyrir því með Nicolas Sarkozy, þáv. Frakklandsforseta, að þessi samningur var gerður. Meirihlutann í þinginu fær Merkel með því að semja við stjórnarandstöðuna og leika um leið á hinn stjórnarflokkinn,  það er Frjálsa demókrata, þeir eru andvígir fjármagnsfærsluskattinum sem Merkel ætlar að innleiða með stjórnarandstöðunni.

Þetta þýska stjórnmálastarf er víðs fjarri frekjulegum stjórnarháttum Jóhönnu Sigurðardóttur enda er hún að kafsigla Samfylkingunni og ríkisstjórninni. Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður vinstri-grænna, er dæmigerður fulltrúi Jóhönnu-stjórnarinnar. Hann ræðst á andstæðinga sína með ásökunum um drykkjuskap í sölum alþingis. Björn Valur er þó skárri en Jóhanna að því leyti að hann biðst afsökunar á dónaskap sínum. Ekkert slíkt kemst að hjá Jóhönnu. Hvenær skyldi þingflokkur Samfylkingarinnar sjá að sér og ýta forsætisráðherra til hliðar?

Þegar minnst er á að þingmenn séu undir áhrifum áfengis í þingsal kemur mér alltaf í hug það sem breski ráðherrann Richard Crossman segir í dagbókum sínum, að hann hafi stundum orðið að átta sig á því með lestri á Hansard, bresku þingtíðindunum, hvað hann sagði kvöldið áður – hann hefði fengið sér of mörg glös með kvöldmatnum.

Það er mikill misskilningur ef menn halda að saga alþingis geymi engin dæmi um að kaupstaðarlykt hafi fundist af þingmönnum í ræðustól. Hitt lýsir ákveðinni tegund af  skepnuskap að úthrópa þingmann vegna þess og enn meiri ótugtarhátt að hafa ekkert fyrir sér í málinu en eigin illvilja.