30.5.2012 21:10

Miðvikudagur 30. 05. 12

Í dag ræði ég við Hall Hallsson, blaðamanna og rithöfund, í þætti mínum á ÍNN um enska útgáfu á bók hans Váfugli. Útgáfuteiti bókarinnar var haldið í Westminster-höll,  heimkynnum breska þingsins við ána Thames í London. Það eru ekki margar bækur Íslendings sem kalla á slíka viðhöfn. Sjón er sögu ríkari, þátturinn verður næst sýndur klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Ríkisútvarpið (RÚV) tók mikla syrpu í dag vegna þess að Stöð 2 boðaði að hún ætlaði að sýna umræðuþátt með tveimur forsetaframbjóðendum, Ólafi Ragnari og Þóru.  Kallaði ríkisútvarpið á Þorbjörn Broddason prófessor sér til halds og trausts. Hann taldi þetta hið mesta hneyksli og sagði við síðdegisútvarp rásar 2:

 „Ef ég væri í hópi frambjóðenda myndi ég láta reyna á það [hvort þessi tilhögun að velja aðeins tvo frambjóðendur standist lög] með því að gera erindi til fjölmiðlanefndar. Við skulum athuga það að Stöð 2 er leyfisskyldur fjölmiðill og þetta leyfi er endurnýjað með reglulegu millibili og það hlýtur að vera litið á það hvernig þeir hafa staðið sig. Reyndar held ég að þetta verði ekkert mál því ég hef ekki nokkra trú á því að þessir tveir frambjóðendur, sem þarna eru nefndir, fallist á að hefja leikinn með svona ólýðræðislegum vinnubrögðum.“

Ríkisútvarpið hefur setið undir ámæli allra frambjóðenda nema Þóru fyrir hvernig forsetakosningamálum er háttað í því. Stjórnendur þess hafa þó varla látið svo lítið að svara þeirri gagnrýni og ekkert var sagt frá því þegar Ólafur Ragnar gagnrýndi ríkisútvarpið harkalega hinn 13. maí sl. Hafa fjölmiðlafræðingar verið kallaðir á vettvang í tilefni af gagnrýninni á RÚV?

Fjölmiðlanefndin sem Þorbjörn nefnir í ábendingu sinni til frambjóðenda taldi sig ekki geta tekið á kvörtun Ástþórs Magnússonar vegna framkomu RÚV. Ástþór kvartaði til umboðsmanns alþingis sem sent hefur fjölmiðlanefndinni spurningar varðandi lögmæti ákvarðana hennar.

Stjórnendur RÚV vita sem er að tveggja manna einvígis-þættir frambjóðenda eru miklu skemmtilegra efni en sjö frambjóðenda þættir. Það yrði eftir öðru ef fjölmiðlanefnd bannaði slíka þætti á Stöð 2 en teldi sig ekkert geta sagt um framgöngu RÚV.