28.5.2012 22:50

Mánudagur 28. 05. 12

Stjórnarandstaðan féll frá orðinu um skoðanakönnun á viðhorfi til álitamála við gerð nýrrar stjórnarskrár. Ætlunin var að greiða fyrir þingstörfum, væntanlega í samstarfi við stjórnarflokkanna sem dembdu á sjötta tug mála inn í þingið á lokadegi framlagningar og heimta afgreiðslu þeirra. Næsta sem spyrst frá þingi er að Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður vinstri-grænna, krefst þess að forseti alþingis bindi enda á umræður í þingsalnum með því að láta reyna á ákvæði í þingsköpum á þann veg að um hreina ögrun við stjórnarandstöðuna er að ræða.

Þessir stjórnarhættir eru fjarri öllu sem menn eiga að venjast á alþingi. Þeir endurspegla ekki annað en þann yfirgang og ofsa sem einkennir stjórnarhætti Jóhönnu Sigurðardóttur. Björn Valur veit að hann höfðar til þess sem hún telur hæfilegt þegar hann krefst ofríkis af forseta alþingis.

Eins og margoft hefur verið sagt hér á þessum stað ber þingflokkur Samfylkingarinnar ábyrgð á Jóhönnu og stjórnarháttum hennar. Nú telur Björn Valur að hann geti manað Jóhönnu og þingflokk hennar til óhæfuverka í þingsalnum í anda stjórnarsamstarfsins.

Þegar stjórnarandstaðan féll frá orðinu gerði Björn Valur strax lítið úr því sem hún náði fram með samningum. Nú setur hann salt í sárið sem reyndi að valda þá.